Arnór Sigurðsson gekk aftur til liðs við IFK Norrköping frá CSKA Moskvu síðasta sumar og hann hefur heillað síðan þá í Svíþjóð.
Arnór lék með Norrköping árin 2017-2018 áður en hann hélt til Rússlands þar sem hann spilaði 66 leiki fyrir CSKA og skoraði 11 mörk. Hann var á láni hjá Venezia á Ítalíu á tímabilið 2021-2022 en spilaði lítið.
Arnór var gestur í hlaðvarpinu TuttoSvenskan á dögunum þar sem hann ræddi ferilinn hingað til, fótboltakúltúrinn á Íslandi og Akranesi og hvernig það væri að vera einn reynslumesti leikmaður Norrköping aðeins 23 ára gamall. Þá ræddi hann einnig samband sitt við Ísak Bergmann sem hann ráðlagði á sínum tíma að ganga til liðs við Norrköping.
Þáttinn í heild sinni má hlusta á hér en Arnór talar ensku í þættinum
Þáttastjórnendur voru forvitnir að vita meira um heimabæ Arnórs, Akranes, en margir leikmenn frá Akranesi hafa stigið sín fyrstu skref í sænsku úrvalsdeildinni. Arnór segir að menningin í bænum ýti undir það að leikmenn þaðan nái langt.
„Ég held að menningin í bænum spili stórt hlutverk. Þetta er fótboltabær, mikil saga í kringum fótboltann og liðið. Þannig maður er alinn upp með það í huga að gefast aldrei upp og að maður þurfi að vinna fyrir því sem maður vill. Maður á ekki að taka neinu sem gefnu og leggja harðar að sér en næsti maður,“ segir Arnór.
„Þetta er sérstakt, ég held að þetta sé bara svo mikið að allir fylgjast með fótbolta og það er bara fótbolti. Allir horfa á ÍA, allir styðja liðið og þekkja sögu liðsins og þegar að leikmenn fara út í atvinnumennsku þá styður fólkið við bakið á þeim. Þetta er lítið samfélag en mjög náið.“
„Ég held að þetta hafi líka hjálpað mér sjálfum sem fótboltamanni þegar ég fór út og þurfti að takast á við ólíkar áskoranir. Bara að horfa til baka og vita af stuðningi frá bænum. Ég veit að Ísak Bergmann, sem er líka þaðan, mundi segja ykkur það sama.“
Arnór segist vera í góðu sambandi við Ísak Bergmann. Hann segist hafa fylgst vel með honum þegar hann fór til Norrköping og að hann fylgist enn vel með ferli hans.
„Við tölum mjög reglulega saman. Þegar hann ákvað að fara til Norrköping talaði hann við mig fyrst. Ég fylgdist mjög mikið með honum hér í Norrköping og horfði á alla leikina sem hann spilaði og sá hann vaxa hér sem var frábært þar sem að hann var að gera það sama og ég gerði. Ég ráðlagði honum að taka þetta skref þar sem að ég trúði að það væri það rétta fyrir hann. Hann er svolítið eins og ég með sama hugarfar og sama metnað.“
Arnór og Ísak eru núna liðsfélagar í íslenska landsliðinu en Ísak er í dag leikmaður FCK í Danmörku. Þegar Ísak kom fyrst til Norrköping sagði hann að Arnór væri fyrirmynd hans í fótboltanum. Þáttastjórnendur veltu því fyrir sér hvort að Arnór liti á hann sem nokkurskonar lítinn bróður.
„Já það má alveg segja það, ég varð mjög glaður að sjá hann standa sig vel og núna að sjá hann spila í Meistaradeildinni. Hann er mjög góður vinur litla bróður míns, þeir eru bestu vinir, svo það er alveg smá þannig að þeir séu litlu bræður mínir.“
Þáttinn í heild sinni má hlusta á hér að neðan en Arnór talar ensku í þættinum