mið 11. júlí 2018 12:30
Magnús Már Einarsson
Eysteinn Hauks: Hefði ekki dottið þetta í hug fyrir tímabil
Eysteinn Hauksson (til vinstri) og Ómar Jóhannsson stýra Keflavík í leiknum á föstudaginn.
Eysteinn Hauksson (til vinstri) og Ómar Jóhannsson stýra Keflavík í leiknum á föstudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eysteinn Húni Hauksson er tekinn tímabundið við liði Keflavíkur í Pepsi-deildinni. Eysteinn hefur verið aðstoðarþjálfari Keflavíkur en Guðlaugur Baldursson, þjálfari liðsins, lét af störfum í gær.

„Fyrir tímabil hefði mér ekki dottið til hugar að þetta yrði raunin, þar sem Laugi hefur verið til fyrirmyndar í sínu starfi. En eftir að hafa tekið spjallið við hann eftir leikinn gegn Stjörnunni, þá vissi ég að hugur hans var kominn í þessa átt," sagði Eysteinn.

Keflavík tapaði 2-0 gegn Stjörnunni á laugardag og er á botni Pepsi-deildarinnar með þrjú stig eftir ellefu leiki. Guðlaugur kom Keflavík upp í fyrra og Eysteinn segir eftirsjá í honum.

„Ég hef ekki kynnst mörgum vandaðari mönnum á lífsleiðinni og ég hlakkaði til að hitta hann á hverjum degi. Þetta hefur bara verið erfitt tímabil og ég sýni ákvörðun hans virðingu. Það kæmi mér á óvart ef við ættum ekki eftir að sjá hann gera stóra hluti í þjálfun, þó þetta hafi endað svona núna. Hann kom liðinu upp og það verður mín minning um hans störf hér."

Eysteinn og Ómar Jóhannsson stýra Keflavík gegn Víkingi R í næsta leik á föstudaginn. Hefur Eysteinn áhuga á að taka við liðinu út tímabilið?

„Já en ég ætla ekkert framúr mér með það," svaraði Eysteinn að bragði. „Við Ómar sjáum um leikinn á föstudaginn og svo verður þetta skoðað. Ég fer í það sem stjórnin telur félaginu fyrir bestu, af fullum áhuga. Og nú snýst það um þennan leik og æfingarnar fram að honum."
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner