
'Haddi hefur staðið sig frábærlega hjá okkur, ofboðslega samviskusamur, duglegur og leggur sig 100% fram í hlutina'
„Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur KA-mönnum en ljóst er að breytingar verða á liðinu okkar og treystum við Hadda fullkomlega til að leiða félagið í þeirri vegferð," sagði í tilkynningu KA í morgun þegar tilkynnt var að Hallgrímur Jónasson yrði áfram þjálfari liðsins næstu tvö árin.
Fótbolti.net ræddi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og var hann spurður út í þessar væntanlegu breytingar.
Fótbolti.net ræddi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og var hann spurður út í þessar væntanlegu breytingar.
„Við erum aðeins að breyta, við erum líka búin að ráða Atla Svein (Þórarinsson) inn í afreksstarfið hjá okkur. Við viljum aðeins gefa í, bæta umgjörðina enn meira, erum vonandi að fara á nýjan völl á næsta ári og viljum hrista aðeins upp í hlutunum, mæta sterkari til leiks og gefa aðeins í," segir Sævar.
Meta stöðuna hjá nokkrum leikmönnum
Ellefu leikmenn sem hafa komið við sögu í sumar eru að renna út á samningi eftir tímabilið.
Áttu von á miklum breytingum leikmannalega séð?
„Við erum að byrja þau mál núna, við vorum pínu „on the fence" á meðan við sæjum nákvæma stöðu. Núna erum við búnir að tryggja okkur í efstu deild og erum að byrja. Hans Viktor (Guðmundsson) framlengir, Jakob Héðinn kemur frá Víkinni fögru og erum búnir að semja við tvo unga stráka (Jóhann Mikael og Mikael Breka), þetta er komið á smá flug og við ætlum okkur að styrkja okkur. Við þekkjum það alveg að 4-6 leikmenn fara út og annað eins kemur inn, það er pínu okkar gangur hérna á landsbyggðinni. Það verða oft meiri breytingar en maður gerir stundum ráð fyrir."
„Marcel (Römer - fer til Danmerkur) er staðfestur í burtu og það eru 4-5 leikmenn sem við erum að tala við núna og meta stöðuna, hvort þeir verði áfram eða hvort þetta sé orðið gott. Í það minnsta viljum við bæta aðeins í og styrkja hópinn fyrir komandi tímabil."
Munu ræða við Stubb og Rasheed
Jonathan Rasheed, markmaðurinn sem sleit hásin í vetur en er mættur aftur, er með samning út næsta tímabil. Verður hann áfram?
„Hann er einn af þessum mönnum sem við setjumst niður með. Það er fínt núna að sjá hann aðeins á vellinum og við förum svo yfir hlutina með honum, Stubbi (Steinþóri Má) og fleiri leikmönnum varðandi framhaldið."
Ef Stubbur fer annað, verður þá Rasheed áfram, og mögulega öfugt?
„Þeir voru báðir hjá okkur á þessu ári (Rasheed meiddur nánast allt tímabilið). Þetta er líka púsluspil hvað við gerum með Ívar Arnbro, við ræðum það við þjálfarana hvað sé best fyrir hvern leikmann í hvert skiptið. Þetta er púsluspil sem er að byrja í þessari viku."
Horfa ekki mikið í meðalaldurinn
Í umræðunni um KA er vinsælt að tala um aldur liðsins. Það eru nokkuð margir í eldri kantinum, 1992 og eldri, sem eru að renna út. Hvernig sjáið þið plönin varðandi þá leikmenn, horfið þið mikið í meðalaldur á liðinu?
„Nei, við horfum ekki mikið í meðalaldurinn. Aldur er bara einn af mælikvörðunum sem þú horfir í. Þú verður frekar að horfa í spilaðar mínútur, Grímsi (Hallgrímur Mar) er 34 ára, við getum alveg notað hann sem dæmi. Ég held að flest félög horfi þannig á það að þegar leikmenn eru orðnir 30+ og komnir í minna hlutverk, þá viltu frekar opna þá leið fyrir 20 ára og yngri leikmenn. En ef leikmaðurinn er í stóru hlutverki hjá okkur, þá skiptir engu máli hvort hann sé 35-36 ára. Ég held að umræðan um aldur sé að breytast, við sjáum það úti í heimi að allir leikmenn eru farnir að spila mun lengur en þeir gerðu fyrir nokkrum árum síðan. Ef þú byggir félagið þitt upp á því að selja leikmenn, þá þarftu væntanlega að spila ansi mörgum leikmönnum sem eru undir 23 ára því flestir sem eru seldir frá Íslandi eru yngri leikmenn."
Breytingar á teyminu
Verða breytingar á þjálfarateyminu?
„Atli Sveinn er að koma inn í hlutverk og svo er ljóst að við erum að leita að nýjum markmannsþjálfara. Þetta helst allt í hendur hjá okkur, flestir þjálfarar hjá okkur eru að þjálfa meira en einn flokk, við viljum helst hafa þjálfarana eingöngu í starfi hjá okkur, þá eru þeir í einum flokki og í meistaraflokksteyminu. Við erum að byrja að teikna þetta upp, Andri Fannar (Stefánsson) kemur í aðeins meira hlutverk sem þjálfari, kemur inn í afreksþjálfunina. Hann er toppþjálfari og reynslumikill maður sem mun vonandi nýtast félaginu vel og lengi."
„Viljum ekki lenda í þessu eitt árið enn"
Hafið þið fundið svör við því af hverju KA hefur byrjað mótið illa tvisvar í röð?
„Það er frekar spurningarmerki hvað gerðist í fyrra. Þetta undirbúningstímabil núna var eiginlega ótrúlegt. Við vorum meira og minna með 9-12 menn fjarverandi vegna meiðsla. Við komum ekki nógu vel undirbúnir vegna meiðsla lykilmanna og vorum tíma að koma okkur í gang. Tímabilið í fyrra er meira rannsóknarefni fyrir okkur og eitthvað sem við erum að rýna í. Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að mæta með tilbúið lið um leið og mótið byrjar næsta vor. Við viljum ekki lenda í þessu eitt árið enn."
Markmiðið að vera á bilinu 5-8 á Íslandi
Hugmyndin er að bæta í hópinn, styrkja hann.
„Við viljum bæta í, það er alveg á hreinu. Það er samt ekkert launungarmál að við viljum og höfum haft það sem markmið vera á bilinu 5-8 á Íslandi, vera þetta lið sem kroppar í og er á hurðarhúninum þegar þessi stóru 3-4 lið sem eru með forskot á önnur, þegar þau klúðra sínum tímabilum viljum við vera í baráttunni um að komast þar upp á milli."
Verðskulduðu meira og starfið aldrei í hættu
Út af erfiðu byrjuninni í vor og byrjun sumars, voruð þið eitthvað að spá í að breyta um þjálfara?
„Nei, ég get verið heiðarlegur með að við vorum ekki að spá í því. Haddi hefur staðið sig frábærlega hjá okkur, ofboðslega samviskusamur, duglegur og leggur sig 100% fram í hlutina."
„Úrslitin eru eitt en maður rýnir kannski meira í gögnin og það sem við höfum aðgang að á bakvið tjöldin. Þrátt fyrir vonda byrjun þá áttum við að vera með mun fleiri stig en taflan sagði til um og maður trúir því að það jafnist út yfir tímabilið."
„Það er ekkert launungarmál að við höfum lent í ótrúlegum meiðslum í markmannsstöðunni hjá okkur, Rasheed missir allt tímabilið, Stubbur er búinn að missa yfir tíu leiki, Ívar fór á láni og við gátum ekki kallað hann til baka. Við vorum með lykilmenn í þessari stöðu meira og minna frá allt tímabilið. Það er erfitt og hefur áhrif út um allan hóp," segir Sævar.
Athugasemdir