Real Madrid setur sig í samband við Dalot - Gyökeres til United eða City - Salah til í eins árs samning - Rooney reynir að bjarga starfinu
   mán 11. nóvember 2024 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Rice og Saka meiddust gegn Chelsea - „Alger martröð“
Bukayo Saka
Bukayo Saka
Mynd: EPA
Declan Rice og Bukayo Saka fóru báðir meiddir af velli í 1-1 jafntefli Arsenal gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær en Mikel Arteta, stjóri félagsins, vonast til þess að þessu ástandi fari að linna.

Arsenal hefur verið óheppið með meiðsli fyrri hluta tímabilsins. Martin Ödegaard missti af tveimur mánuðum og þá Saka, Kieran Tierney, Takehiro Tomiyasu, Riccardo Calafiori og fleiri leikmenn misst af leikjum vegna meiðsla.

Rice og Saka kláruðu ekki leikinn gegn Chelsea í gær en Arteta er kominn með nóg af meiðslavandræðum liðsins.

„Það sem ég er að vona eftir er að við verðum allir 100 prósent tiltækir eftir landsleikjahléið og að þeir séu í formi því þetta hefur verið alger martröð síðustu átta vikur. Þetta er óvissa og aftur óvissa, hvert vandamálið á fætur öðru og ekki bara með þá sem geta ekki spilað heldur einnig með þá sem geta það,“ sagði Arteta.

Hann var spurður út í stöðuna á Rice og Saka, en hann segir hana ekki góða. Rice hefur verið að jafna sig eftir að hafa brotið tá en hann fór af velli á 71. mínútu og þá fór Saka af velli eftir tæklingu Marc Cucurella.

„Það lítur ekki vel út því þegar tveir mikilvægir leikmenn segja þér að þeir geti ekki haldið áfram að spila. Það er alveg ljóst að það eru ekki góðar fréttir.“

Landsleikjaverkefni er framundan og eru báðir leikmenn í enska landsliðshópnum. Eru þeir klárir fyrir það?

„Þetta eru tveir leikmenn sem komu af velli. Ég veit ekki hvort ég eigi að búast við því að þeir verði klárir í það því annars hefðu þeir ekki þurft að fara af velli,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner