Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 12. janúar 2022 15:14
Elvar Geir Magnússon
Afríkukeppnin: Klukka dómarans brengluð og Túnisar reiðir
 Janny Sikazwe.
Janny Sikazwe.
Mynd: Getty Images
Túnis 0 - 1 Malí
0-1 Ibrahima Kone ('48 , víti)
0-1 Wahbi Khazri ('77 , Misnotað víti)
Rautt spjald: El Bilal Toure, Malí ('87)

Markaskortur Afríkukeppninnar heldur áfram en mark Ibrahima Kone úr vítaspyrnu reyndist sigurmark Malí gegn Túnis í F-riðli. Túnis fékk víti til að jafna metin en spyrna Wahbi Khazri var varin.

Flautaði leikinn tvisvar of snemma af
En það er hinsvegar dómarinn Janny Sikazwe frá Sambíu sem rænir fyrirsögnunum en tímataka hans á leiknum var í meira lagi furðuleg.

Þegar 85 mínútur voru á klukkunni flautaði hann skyndilega til leiksloka en leiðrétti mistök sín og leikurinn hélt fram.

Á 87. mínútu fékk El Bilal Toure, leikmaður Malí, að líta rauða spjaldið. Afskaplega strangur dómur. Sikazwe fór í VAR-skjáinn en stóð við ákvörðun sína.

Túnisar fengu þó lítinn tíma til að nýta sér liðsmunin því þegar 89:45 voru á leikklukkunni flautaði Sikazwe aftur af og stóð við þá ákvörðun sína. Leikurinn fór því ekki einu sinni upp í hinar frægu 90 mínútur.

Að auki er ljóst að uppbótartíminn hefði átt að vera þónokkur enda voru skiptingar í hálfleiknum, tveir vítadómar, rautt spjald, farið í VAR skjáinn og vatnspása vegna hita. Skiljanlega voru Túnisar bálreiðir eftir leikinn og þurftu dómararnir fylgd öryggisvarða til að komast af vellinum, varða sem mynduðu mennskan skjöld.

Janny Sikazwe dómari þarf væntanlega að útskýra hvað fór úrskeiðis. Þess má geta að hann er alls ekki lágt skrifaður hjá FIFA og dæmdi tvo leiki á HM í Rússlandi 2018.


Athugasemdir
banner
banner