Arsenall vill fá Kudus - Man Utd skoðar að losa Zirkzee - Maignan til City og hvað verður um Davies og David?
   fös 12. ágúst 2022 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Ísak Snær tvisvar fengið heilahristing á þremur vikum
Marki fagnað í sumar.
Marki fagnað í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar.
Ísak er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er óvíst hvort Ísak Snær Þorvaldsson, besti leikmaður Íslandsmótsins til þessa, geti tekið þátt í stórleiknum gegn Víkingi á mánudagskvöld.

Ísak var ekki með Blikum gegn Istanbul Basaksehir í síðari leik liðanna í Sambandsdeildinni í gær. Ísak hefur fengið nokkur höfuðhögg á síðustu dögum og er hann með heilahristing.

„Þetta er enn frekar óljóst. Þetta er heilahristingur. Ég er búinn að fá þrjú höfuðhögg á sirka þremur vikum og tvisvar er ég búinn að fá heilahristing," segir Ísak í samtali við Fótbolta.net.

„Ég spilaði í gegnum fyrri heilahristinginn. Núna fékk ég svo boltann í hausinn og var frekar slæmur. Það var ákveðið að ég myndi hvíla þennan leik."

„Ég er með smá hausverk núna en ég er miklu betri en ég var. Ég er búinn að fara í próf og er í sjúkraþjálfun. Vonandi verð ég kominn til baka sem fyrst."

Hann fékk höggin öll í leikjum, í báðum leikjunum gegn Buducnost í Sambandsdeildinni og svo gegn Stjörnunni í síðasta deildarleik Blika. „Þetta var bolti í hausinn og hausinn var orðinn næmur eftir fyrri högg. Það þurfti lítið til að fá heilahristing aftur," segir Ísak um höggið sem hann fékk gegn Stjörnunni.

Hann segir að það sé óvíst hvort hann geti spilað í stórleiknum gegn Víkingum á mánudag, hann ætlar að sjá hvernig hann verður á morgun og á sunnudag en það skal taka höfuðhöggum alvarlega. Það er ljóst að það yrði mikið áfall fyrir Blika að vera án hans í þeim mikilvæga leik í titilbaráttunni en heilsa Ísaks á auðvitað að vera það mikilvægasta í þessu öllu saman.

Það var erfitt að horfa á þetta
Ísak segir að það hafi verið erfitt að vera heima í stofu að horfa á seinni leikinn gegn Basaksehir í gær.

„Það var mjög erfitt. Það er aldrei skemmtilegt að horfa á leiki í sjónvarpinu. Það var erfitt að horfa á þetta," segir Ísak. Hann var með í fyrri leiknum sem endaði 1-3 fyrir Basaksehir. Leikurinn í gær endaði 3-0 og Blikar því úr leik.

„Þeir eru með gæði og ef maður gerir lítil mistök á móti þeim þá refsa þeir. Mér fannst við eiga séns í fyrri leiknum, en þeir tóku sýna sénsa vel á meðan við gerðum það ekki. Það voru lítil mistök sem urðu okkur að falli. Við áttum séns í þá í fyrri leiknum."
Athugasemdir
banner
banner
banner