Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 13. júní 2022 23:07
Brynjar Ingi Erluson
Fengu ekki að sjá sjónarhornið sem VAR notaðist við - „Ómögulegt að dæma um það"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Landsliðsþjálfarinn, Arnar Þór Viðarsson, segist ekki enn hafa fundið það sjónarhorn sem sýnir að annað mark Ísraels hafi átt að standa eða ekki.

Ísland gerði 2-2 jafntefli við Ísrael á Laugardalsvelli í kvöld en annað mark gestanna var í meira lagi vafasamt.

Ísraelarnir áttu fyrirgjöf frá hægri sem kom inn í teig og var boltinn skallaður í átt að marki en Rúnar Alex Rúnarsson kom sér í stöðu áður en hann varði færið.

Hann var inni í markinu þegar hann varði og var dæmt mark eftir skoðun frá VAR en Arnar segir það ómögulegt fyrir VAR að geta dæmt um það hvort hann hafi verið inni, enda sé ekkert sjónarhorn sem getur sannað það.

„Það er nákvæmlega svarið. Línuvörðurinn dæmdi ekki mark heldur er það VAR sem kemur og segir að þetta sé mark. Ég kann ekki alla reglubókina utan að en þeir þurfa að vera 100 prósent öruggir um að boltinn sé inni og ég held að það sé ekki hægt nema að það sé annað hvort marklínutækni eða myndavél á línunni. Það er það sem ég hef heyrt og ég spurði hvort ég mætti sjá sjónarhornið en við fengum ekki að sjá það og ég held að það sé ómögulegt fyrir VAR að dæma um það," sagði Arnar.

Arnar leitaðist eftir því að ræða við dómara leiksins en fékk ekki að vita hvaða sjónarhorn VAR notaðist við.

„Við fáum ekki að sjá sjónarhornið sem dæmir þetta mark. Það er ekki einhver auka camera sem þeir eru að nota, heldur úr útsendingu. Við getum séð allar þessar hliðar við höfum ekki fundið þá hlið enn sem segir að þetta sé 100 prósent mark. Þú mátt ekki snúa dómi dómara nema þú sért 100 prósent öruggur," sagði Arnar ennfremur.

Ísland er í öðru sæti riðilsins með 3 stig eftir þrjá leiki, tveimur stigum á eftir toppliði Ísraels.
Athugasemdir
banner
banner
banner