Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano segir félagaskipti Allan Saint-Maximin til Fenerbahce vera frágengin.
Saint-Maximin fer til félagsins á lánssamningi og tekur á sig launalækkun til að spila undir stjórn José Mourinho, sem hringdi í hann persónulega til að sannfæra um að færa sig um set.
Kantmaðurinn knái fer á láni frá Al-Ahli í Sádi-Arabíu og þurfti að sannfæra stjórnendur arabísku deildarinnar að hleypa sér burt. Stjórnendurnir vildu að hann færi frekar til annars félags í Sádi-Arabíu, en Saint-Maximin fékk að lokum sínu framgengt.
Saint-Maximin er 27 ára kantmaður sem gerði garðinn frægan sem leikmaður Newcastle United í enska boltanum. Hann er einstaklega leikinn með boltann og snar í snúningum en hefur alla tíð átt í miklu basli með að skora mörk.
Hann skoraði 4 mörk í 31 leik á sínu fyrsta tímabili með Al-Ahli og gaf auk þess 10 stoðsendingar.
Fenerbahce er að vinna hörðum höndum að því að styrkja leikmannahópinn sinn fyrir átök næsta tímabils í tyrknesku toppbaráttunni, þar sem Caglar Söyüncü og Rade Krunic eru báðir komnir til félagsins ásamt Levent Mercan.
Söyüncü og Krunic léku með félaginu á láni á síðustu leiktíð og þóttu standa sig vel.
Michy Batshuayi, Joshua King og Leonardo Bonucci hafa yfirgefið félagið á frjálsri sölu, en Bonucci er búinn að leggja skóna á hilluna.
Athugasemdir