Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 13. september 2020 18:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aron Jó heitur fyrir framan markið - Hörður skoraði
Aron Jóhannsson skorar og skorar.
Aron Jóhannsson skorar og skorar.
Mynd: Twitter
Hörður Björgvin skoraði.
Hörður Björgvin skoraði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Aron Jóhannsson er sjóðandi heitur um þessar mundir í sænsku úrvalsdeildinni

Hann skoraði síðara mark Hammarby í 2-2 jafntefli gegn Helsinborg í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Aron, sem hefur átt í miklum vandræðum með meiðsli síðustu ár, er núna búinn að skora sex mörk í síðustu sjö leikjum liðsins.

Aron Jó og félagar eru í sjötta sæti deildarinnar með 29 stig eftir 20 leiki.

Í Malmö var Íslendingaslagur þar sem Malmö gerði markalaust jafntefli við AIK. Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði Malmö, sem er á toppi deildarinnar, en Kolbeinn Sigþórsson var ekki með AIK, sem er í 13 sæti.

Hörður skoraði fyrir CSKA
Í rússnesku úrvalsdeildinni fór Íslendingalið CSKA Moskvu með sigur af hólmi gegn nágrönnum sínum í Spartak Moskvu, 3-1.

CSKA lenti 1-0 undir, en Hörður Björgvin Magnússon jafnaði metin eftir hálftíma leik. Staðan var 2-1 í hálfleik. Hörður lék allan leikinn en Arnór Sigurðsson var allan tímann á bekknum hjá CSKA, sem er í þriðja sæti með 13 stig.

OB lagði FC Kaupmannahöfn
Danska úrvalsdeildin er byrjuð aftur að rúlla og þar var Íslendingaslagur þar sem OB og FC Kaupmannahöfn áttust við á heimavelli fyrrnefnda liðsins í Óðinsvé.

Aron Elís Þrándarson kom inn á sem varamaður fyrir OB eftir klukkutíma leik en Ragnar Sigurðsson var ekki með FCK. Sveinn Aron Guðjohnsen kom til OB á láni fyrr í dag en var ekki með í leiknum í dag þar sem hann er nýkominn til félagsins.

OB leiddi 3-0 í hálfleik en FCK klóraði aðeins í bakkann í síðari hálfleiknum. Það reyndist ekki nóg því OB vann leikinn 3-2.

Elías Rafn Ólafsson var í markinu hjá Fredericia í 2-1 sigri Kolding. Elías er í láni frá Midtjylland.

Álasund tapaði eftir að Hólmbert fór meiddur út af
Við endum þessa yfirferð í Noregi þar sem Álasund tapaði á heimavelli gegn Sarpsborg. Sóknarmaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik en sigurmark kom í byrjun seinni hálfleiks.

Þrátt fyrir að Hólmbert sé með markahæstu leikmönnum deildarinnar þá er Álasund á botninum með aðeins sjö stig eftir 16 leiki. Daníel Leó Grétarsson og Davíð Kristján Ólafsson voru einnig í byrjunarliði Álasunds í dag.

Alfons Sampsted spilaði allan leikinn fyrir Bodö/Glimt í 6-1 sigri á Odd. Alfons og félagar eru á toppnum með 13 stiga forystu.

Emil Pálsson og Viðar Ari Jónsson voru báðir í byrjunarliði Sandefjord sem vann 2-0 sigur gegn Mjondalen. Dagur Dan Þórhallsson kom inn á sem varamaður á 75. mínútu fyrir Mjondalen, sem er í næst neðsta sæti deildarinnar. Sandefjord er í 13. sæti af 16 liðum.

Þá var Ari Leifsson ekki í leikmannahópi Stromsgodset í 3-3 jafntefli við Rosenborg. Valdimar Þór Ingimundarson er á leið til Stromsgodset, sem er 12. sæti deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner