Þremur fyrstu leikjum kvöldsins er lokið í ensku úrvalsdeildinni þar sem Chelsea rétt marði jafntefli á heimavelli gegn Bournemouth á meðan Manchester City gerði jafntefli á útivelli gegn Brentford eftir að hafa komist í tveggja marka forystu.
Cole Palmer tók forystuna fyrir Chelsea eftir góða sendingu frá Nicolas Jackson. Palmer skoraði afar laglegt mark þar sem hann fíflaði Mark Travers markvörð Bournemouth upp úr skónum áður en hann skoraði.
Chelsea var talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Liðið skapaði sér mikið af góðum færum en tókst ekki að tvöfalda forystuna. Travers átti frábæran leik á milli stanga Bournemouth og hélt sínum mönnum inni í leiknum.
Síðari hálfleikurinn var talsvert jafnari. Chelsea átti í miklum erfiðleikum með að skapa sér færi á meðan gestirnir nýttu sín færi til hins ítrasta.
Justin Kluivert jafnaði fyrir gestina með marki úr vítaspyrnu eftir klaufalegt brot Moisés Caicedo innan vítateigs og svo skoraði Antoine Semenyo sigurmark með svakalegu bylmingsskoti í nærhornið úr þröngu færi.
Chelsea reyndi að sækja jöfnunarmark og tókst að skora á 95. mínútu þegar Reece James skoraði laglegt mark beint úr aukaspyrnu til að bjarga stigi. Lokatölur urðu 2-2 og er þetta fimmti deildarleikur Chelsea í röð án sigurs.
Chelsea er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 37 stig eftir 21 umferð, þremur stigum fyrir ofan Bournemouth.
Chelsea 2 - 2 Bournemouth
1-0 Cole Palmer ('13)
1-1 Justin Kluivert ('50, víti)
1-2 Antoine Semenyo ('68)
2-2 Reece James ('95)
Hákon Rafn Valdimarsson sat á bekknum er Brentford tók á móti Englandsmeisturunum og var staðan markalaus í leikhlé, eftir nokkuð tíðindalítinn fyrri hálfleik þar sem gestirnir frá Manchester ógnuðu þó meira.
Síðari hálfleikurinn var gríðarlega opinn og skemmtilegur en það var Phil Foden sem tók forystuna fyrir gestina og tvöfaldaði hana svo sjálfur á 78. mínútu.
Lærisveinar Thomas Frank í liði Brentford voru þó ekki á því að gefast upp og minnkaði Yoane Wissa muninn á 82. mínútu, áður en Christian Norgaard tókst að jafna metin í uppbótartíma. Mögnuð endurkoma hjá Brentford sem nægði til að tryggja stig á móti ríkjandi Englandsmeisturum.
Man City er í sjötta sæti með 35 stig á meðan Brentford situr áfram um miðja deild með 28 stig.
Brentford 2 - 2 Man City
0-1 Phil Foden ('66 )
0-2 Phil Foden ('78 )
1-2 Yoane Wissa ('82 )
2-2 Christian Norgaard ('90 )
Að lokum áttust West Ham United og Fulham við í afar fjörugum Lundúnaslag þar sem fimm mörk voru skoruð. Í heildina voru því skoruð 13 mörk í þremur leikjum sem var að ljúka.
Carlos Soler og Toumas Soucek komu Hömrunum í tveggja marka forystu eftir slæman varnarleik hjá Fulham og leiddu þeir 2-0 í leikhlé, en Alex Iwobi minnkaði muninn í síðari hálfleik með fyrirgjöf sem endaði í netinu.
Lucas Paquetá tvöfaldaði forystu West Ham á ný á 67. mínútu eftir góða pressu áður en Iwobi tókst að minnka muninn aftur niður í eitt mark. Bæði mörk Iwobi komu eftir fyrirgjafir sem varnarmenn West Ham og Lukasz Fabianski í markinu misreiknuðu og enduðu í netinu.
Nær komst Fulham þó ekki og urðu lokatölur 3-2 fyrir West Ham, frábær byrjun hjá Graham Potter í ensku úrvalsdeildinni.
Varnarleikur Hamranna var frábær og færanýtingin enn betri, þar sem heimamenn áttu fjórar marktilraunir í leiknum og skoruðu þrjú mörk.
Til samanburðar átti Fulham 21 marktilraun en aðeins fimm þeirra rötuðu á rammann.
West Ham er í 12. sæti með 26 stig eftir þennan sigur, fjórum stigum á eftir Fulham.
West Ham 3 - 2 Fulham
1-0 Carlos Soler ('31 )
2-0 Tomas Soucek ('33 )
2-1 Alex Iwobi ('51 )
3-1 Lucas Paqueta ('67 )
3-2 Alex Iwobi ('78 )
Athugasemdir