Sir Jim Ratcliffe, hluteigandi í Manchester United, segir að félagið hafi tekið ranga ákvörðun með að ráða David Moyes í stað Sir Alex Ferguson fyrir tólf árum síðan. Ratcliffe talaði um það og niðursveiflu félagsins í viðtali við Times.
Ferguson er allra besti stjóri í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en ákvað að kalla þetta gott með úrvalsdeildartitli árið 2013.
Skotinn kom að því að velja arftakann og varð landi hans, David Moyes, fyrir valinu, en það kom síðar á daginn að það hafi verið kolröng ákvörðun.
Moyes entist ekki heilt tímabil hjá United og fór það svo að Ryan Giggs stýrði liðinu í síðustu leikjum tímabilsins.
Eigandinn sagði að margt hafi spilað inn í niðursveiflu United eftir að Ferguson yfirgaf félagið og stjórnir félagsins hafi gert mörg dýrkeypt mistök.
Fyrir það fyrsta taldi hann ekki rétt að ráða Ed Woodward og Richard Arnold sem framkvæmdastjóra, tvo menn sem höfðu að hans mati ekki mikið vit á fótbolta.
„Ég hefði ekki tekið það í mál að hafa Ed Woodward eða Richard Arnold. Richard var rúgbíkall og skildi ekki í fótbolta á meðan Ed hafði ekki það sem þurfti til að stjórna félagi. Hann vann fyrir fjárfestingabanka sem endurskoðandi. Hann var ekki framkvæmdastjórinn.“
„Ég sé þetta þannig að síðustu tólf ár voru tveir stýrihópar hjá United sem stóðu sig ekki vel því eigendurnir voru ekki eins og Steve Parish hjá Crystal Palace eða Daniel Levy hjá Tottenham. Þeir voru ekki inn í smáatriðunum á meðan þessir tveir vita hvað er að gerast. Þeir eru þarna á hverjum einasta degi og stjórnir þessara félaga eru í stuttri ól.“
„Stjórn Man Utd hefur fengið þvílikt frjálsræði á meðan eigendurnir sáu um félagið og létu fótboltalegu hliðina alveg eiga sig. Margar slæmar ákvarðanir hafa verið teknar á síðustu tólf árum, margar heimskulegar ákvarðanir. Það er eiginlega sláandi hvernig þeir klúðruðu málunum. Fyrsta stjórnin taldi sig skilja hlutina og vildi fara í það að kaupa fótboltamenn, en höfðu enga þekkingu hvernig best væri að gera það þannig þeir fóru á markaðinn og spreðuðu peningunum. Þetta var bara einhvern veginn og þeir höfðu enga hugmynd um í hvaða átt þetta væri að fara.“
Ratcliffe segir að það hafi verið röng ákvörðun hjá eigendum United að fá Moyes til að taka við af Ferguson.
„Ég er ekki týpan af manni sem segir að svona sé bara lífið í fótboltanum. Að það séu hæðir og lægðir og svona hlutir gerast bara, því ef þú horfir á Real Madrid, Barcelona og Bayern München þá sérðu að þessi félög vinna ekki svona. Þeir halda sig í kringum toppsætin, en þannig hefur það ekki verið hér því þessu hefur verið stjórnað illa og slæmar ákvarðanir teknar.“
„Ég er mjög hrifinn af David Moyes og finnst hann frábær stjóri, en að fara úr Sir Alex Ferguson í Moyes er ekki leiðin sem ég hefði farið. Moyes þurfti að taka við af Ferguson sem hafði unnið ensku úrvalsdeildina þrettán sinnum og Meistaradeildina í tvígang og þú ert að rétta manni, sem hafði aldrei þjálfað stórstjörnur og aldrei unnið neitt, kyndilinn. Hann hafði ekki endilega rétta persónuleikann til að leiða það lið áfram.“
„Ég held að Real Madrid hefði ekki tekið svona ákvörðun þegar það kemur að þjálfara. Félögin ná þessu ekki alltaf rétt, en Untied hefði átt að finna besta framkvæmdastjóra heims og besta þjálfara heims, því United er besta félag heims, en í staðinn tók það tvær rangar ákvarðanir,“ sagði Ratcliffe í Times.
Athugasemdir