mán 15. ágúst 2022 12:25
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Dómarinn Tómas Meyer rotaðist í leik en það bjargaði lífi hans
Dómarinn Tómas Meyer.
Dómarinn Tómas Meyer.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas Meyer dómari útskrifaðist af sjúkahúsi á föstudaginn eftir vikudvöl. Hann var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa rotast þegar hann fékk boltann í höfuðið þegar hann dæmdi leik Augnabliks og KH í 3. deild karla.

Tómas sagði frá því í útvarpsþættinum Fótbolti.net hvernig þetta atvik endaði á því að bjarga lífi hans.

„Ég dæmdi aukaspyrnu á 50. mínútu og hleyp frá. Næsta sem ég man eftir er að ég vakna eftir rothögg. Ég vissi ekkert hvað var í gangi og átti erfitt með að ná andanum þegar ég vaknaði, þetta er ein versta lífsreynsla sem ég hef lent í," segir Tómas.

Sjúkrabíll var kallaður til þegar atvikið gerðist og menn á staðnum voru við það að hefja endurlífgun þegar Tómas komst til meðvitundar að nýju.

„Ég var í algjöru sjokki og allur blóðugur. Ég hef ekki séð upptöku af þessu en boltinn kemur væntanlega í gagnaugað á mér. Ég fell niður eins og hnefaleikamaður og ég lendi á andlitinu og brjóstkassanum. Ég er með einhvern stærsta marblett sem ég hef séð einmitt þar sem hjartað er."

Tómas var leiddur inn til búningsklefa áður en sjúkraflutningamenn tóku ákvörðun um að senda hann á sjúkrahús í skoðun.

„Þar kemur í ljós að ég var ekki alveg í lagi. Ég var með alltof háan blóðþrýsting. Ég var í myndatökum og reynt að komast að því hvað veldur. Þetta eru algjörir snillingar þarna á Landspítalanum. Þá kemur í ljós að þetta er ættgengt. Núna er ég undir eftirliti og líður mjög vel. Ég hlakka til að takast á við það verkefni sem bíður mín núna. Ég er bara jákvæður á það."

Efri mörkin hjá Tómasi í blóðþrýstingsmælingunni voru 267, tölur sem fáir hafa séð.

„Þetta hefði geta farið svo illa. Þau á spítalanum kölluðu þetta 'slow death' (hægfara dauða). Þarna fékk ég gott gult spjald sem ég tek fagnandi. Þetta högg sá til þess að ég er kominn á kreik og það er verið að laga mig," segir Tómas sem þarf að taka til hjá sjálfum sér varðandi mataræði og annað.

Hann ætlar ekki að leggja dómgæsluna á hilluna. „Ég er ekki hættur. Ég tek bara skref fyrir skref í þessu. Fótboltinn má ekki við því að missa fleiri dómara út," segir Tómas en í spilaranum hér að neðan má hlusta á þáttinn í heild sinni.
Útvarpsþátturinn - Liðin sem hafa breytt leiknum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner