þri 16. febrúar 2021 14:15
Magnús Már Einarsson
Meistaraspáin: Stórleikur á Spáni - Hvað gerir Liverpool?
Liverpool mætir RB Leipzig í Ungverjalandi í kvöld.
Liverpool mætir RB Leipzig í Ungverjalandi í kvöld.
Mynd: Getty Images
Verður Messi í stuði í kvöld?
Verður Messi í stuði í kvöld?
Mynd: Getty Images
Boltinn byrjar að rúlla aftur í Meistaradeild Evrópu í kvöld þegar 16-liða úrslitin hefjast með tveimur leikjum klukkan 20:00.

Meistaraspáin er á sínum stað en sérfræðingar í ár eru Kristján Guðmundsson og Guðmundur Steinarsson.

Spáð er um úrslit allra leikja í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Fyrir hárréttar lokatölur fást 3 stig en 1 stig ef rétt tákn er á leiknum.

Kristján Guðmundsson

Barcelona 2 - 1 PSG
Barca virðast vera búnir að finna taktinn að nýju á hárréttum tíma fyrir Meistaradeildina. De Jong gæti þurft að spila í hafsentinum þar sem Pique spilar ekki. en það mun ekki koma að sök. Mikið mun mæða á Mbappe í sóknarleiknum hjá PSG þar sem Di Maria og Neymar eru ekki með.

Leipzig 2 - 1 Liverpool
Það er gríðarlega erfitt að lesa í þessa viðureign. Leikurinn spilaður á hlutlausum velli í Budapest. Liverpool hafa tapað 5 af seinustu 7 leikjum og jafnvægið í varnarleiknum ekki eins og þeir vildu hafa það. Hversu vel nær sóknarlína Liverpool að ógna Leipzig og halda lífi i einvíginu? Hvernig ætlar Leipzig að nýta styrkleika sína til að sundra áttavilltum varnarleik Liðverpool?

Guðmundur Steinarsson

Barcelona 3 - 0 PSG
Hefði getað orðið afar spennandi viðureign, en fjarvera Neymar dregur úr þessu spenninginn. Varnarleikur PSG gæti þó orðið þéttari fyrir vikið þar sem Neymar hefur ekki verið að skila varnarvinnu af neinu viti, bara spurning hvort þeir nái þeim þunga í sóknina sem þarf til að skapa usla. Finnst Barcelona of sterkir í þetta skiptið.

RB-Leipzig 2 - 2 Liverpool
Spennandi viðreign, Liverpool í mikilli dýfu sem sér ekki fyrir endann á. En ný keppni og nýir möguleikar. Spurningin verður hvort Leipzig þori að setja pressu á öftustu línu Liverpool og skapa sér þannig færi og skilja sig eftir berskjaldaða til baka. Þeir eru hins vegar ekki búnir að fylla skarð Werner og eru í smá basli með mörk. Vinstri bakvörður þeirra markahæstur það sem af er. Liverpool verður sátt með jafntefli og líf í einvíginu.

Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson

Barcelona 2 - 1 PSG
Erfitt að spá fyrir um þetta. Barcelona hefur verið á mjög flottu skriði upp á síðkastið og PSG ekki alveg náð að springa út - ef svo má segja - undir stjórn Mauricio Pochettino. PSG er auðvitað án Neymar í kvöld og það hefur áhrif. PSG tekur forystuna en Barcelona nær að klára þetta. Úrslitin gera það að verkum að seinni leikurinn í þessu einvígi verður líka mjög spennandi. Allt eins og við viljum hafa þetta!

RB Leipzig 3 - 2 Liverpool
Hef á tilfinningunni að þetta verði skemmtilegur leikur. Það gengur örlítið betur hjá RB Leipzig þessa stundina en Liverpool nær tveimur sterkum útivallarmörkum og þetta verður æsispennandi fyrir seinni leikinn. Verður örugglega frekar skrítið fyrir Leipzig að spila heimaleikinn ekki á heimavelli.
Athugasemdir
banner