Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 16. október 2021 16:09
Brynjar Ingi Erluson
England: Man Utd tapaði - Mögnuð endurkoma Wolves
Cristiano Ronaldo súr á svip en leikmenn Leicester fagna sigrinum
Cristiano Ronaldo súr á svip en leikmenn Leicester fagna sigrinum
Mynd: Getty Images
Ruben Neves skorar sigurmark Wolves
Ruben Neves skorar sigurmark Wolves
Mynd: Getty Images
Bernardo Silva fagnar marki sínu gegn Burnley
Bernardo Silva fagnar marki sínu gegn Burnley
Mynd: Getty Images
Leicester City vann Manchester United, 4-2, í áttundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. United er án sigurs í síðustu þremur leikjum í deildinni.

Það var töluvert meiri orka í Leicester-liðinu í fyrri hálfleik en United byrjaði þó betur og skoraði Mason Greenwood á 19. mínútu. Bruno Fernandes lagði boltann á Greenwood sem lét vaða af löngu færi með vinstri fæti og átti Kasper Schmeichel ekki möguleika á að verja.

Leicester fékk nokkur færi áður en jöfnunarmarkið kom á 31. mínútu en það kom eftir klaufaleg mistök Harry Maguire. David De Gea átti sendingu og beið Maguire eftir boltanum. Kelechi Iheanacho stal boltanum af honum og lagði hann út fyrir teiginn á Youri Tielemans sem skaut honum hátt upp í loftið, yfir De Gea og í samskeytin.

Greenwood var nálægt því að koma United yfir á 65. mínútu en skot hans fór í stöng. Það var líf og fjör í sóknarleik beggja liða í síðari hálfleik.

Leicester tókst að komast yfir á 78. mínútu. Caglar Soyuncu gerði það eftir hornspyrnu. Boltinn datt fyrir hann í teignum og kom hann boltanum í netið.

Marcus Rashford kom til baka eftir axlarmeiðsli og kom við sögu á 67. mínútu. Fimmtán mínútum síðar jafnaði hann metin eftir langa sendingu frá Victor Lindelöf. Hann lyfti síðan boltanum yfir Schmeichel og í netið. Aðeins mínútu síðar kom Jamie Vardy Leicester aftur yfir eftir sendingu frá Ayoze Perez.

Patson Daka gerði svo út um leikinn undir lok leiksins. Tielemans átti aukaspyrnu sem fór á fjærstöngina, enginn varnarmaður United náði til knattarins og var Daka fljótur að átta sig og gulltryggði sigurinn.

Þriðji leikur United í röð án sigurs. Leicester er með 11 stig í 11. sæti á meðan United er í 5. sæti með 14 stig, fjórum stigum frá toppliði Liverpool.

Manchester City lagði Burnley að velli, 2-0. Pep Guardiola gerði nokkrar breytingar á sínu liði og fengu menn að spila sem hafa fengið færri mínútur en aðrir í liðinu.

Bernardo Silva skoraði strax á 12. mínútu leiksins áður en Kevin de Bruyne bætti við öðru marki á 70. mínútu. Jóhann Berg Guðmundsson kom inná sem varamaður á 72. mínútu.

Man City er í öðru sæti með 17 stig. Southampton vann þá Leeds 1-0. Armando Broja skoraði eina mark leiksins á 53. mínútu leiksins. Norwich gerði markalaust jafntefli við Brighton og þá vann Wolves ótrúlegan 3-2 sigur á Aston Villa eftir að hafa lent 2-0 undir.

Danny Ings skoraði strax í upphafi síðari hálfleiks eftir sendingu frá John McGinn áður en McGinn gerði annað markið tuttugu mínútum síðar. Mark af dýrari gerðinni.

Wolves kom þó til baka á síðustu tíu mínútunum. Romain Saiss skoraði á 80. mínútu eftir hornspyrnu og fimm mínútum síðar jafnaði Conor Coady metin með mikilli ákefð og baráttu.

Það var svo skrifað í skýin að sigurmark Wolves kæmi og það kom svo sannarlega. Ruben Neves gerði það úr aukaspyrnu en boltinn fór af Matt Targett og í netið. Lokatölur 3-2 fyrir Wolves.

Úrslit og markaskorarar:

Leicester City 4 - 2 Manchester Utd
0-1 Mason Greenwood ('19 )
1-1 Youri Tielemans ('31 )
2-1 Caglar Soyuncu ('78 )
2-2 Marcus Rashford ('82 )
3-2 Jamie Vardy ('83 )
4-2 Patson Daka ('90 )

Manchester City 2 - 0 Burnley
1-0 Bernardo Silva ('12 )
2-0 Kevin de Bruyne ('70 )

Norwich 0 - 0 Brighton

Southampton 1 - 0 Leeds
1-0 Armando Broja ('53 )

Aston Villa 2 - 3 Wolves
1-0 Danny Ings ('48 )
2-0 John McGinn ('68 )
2-1 Romain Saiss ('80 )
2-2 Conor Coady ('85 )
2-3 Ruben Neves ('90 )
Athugasemdir
banner
banner
banner