Arsenal og Man Utd vilja Adeyemi - Stórveldi á eftir miðjumanni AZ - PSG vill Vinícius á frjálsri sölu 2027 - Newcastle skoðar Trafford
   sun 16. nóvember 2025 20:29
Kári Snorrason
Upplifðu sömu tilfinningu fyrir tólf árum
Arnar Gunnlaugsson líkti tapi kvöldsins við tap Íslands gegn Króatíu í umspili upp á að komast á HM í Brasilíu fyrir tólf árum.
Arnar Gunnlaugsson líkti tapi kvöldsins við tap Íslands gegn Króatíu í umspili upp á að komast á HM í Brasilíu fyrir tólf árum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland tapaði 2-0 fyrir Úkraínu í lokaleiknum í undankeppni HM og missti þar af leiðandi af umspilssæti. Því er ljóst að strákarnir okkar verða ekki með á HM í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson sagði á blaðamannafundi eftir leik að tapið væri mikið áfall fyrir hópinn og líkti því við tapið gegn Króatíu fyrir tólf árum í umspili upp á að komast á HM í Brasilíu. 


„Þetta er auðvitað mikið sjokk. Sumir líta á þetta sem síðasta tækifæri þeirra til þess að komast á stórmót. En annað fyrir yngri leikmennina. Ég talaði um í klefanum áðan að það voru tveir leikmenn (Aron Einar og Jóhann Berg) í hópnum sem höfðu upplifað þetta árið 2013; að missa rétt af því að komast á stórmót. Það er erfitt fyrir þá að hlusta á að þeir þurfa að bíða í nokkur ár eftir næsta tækifæri en þetta er fljótt að líða í fótboltanum.“ 

„Núna áttu að gera það sem þú átt að gera eftir tapleiki; að vera svekktur og sár. Þetta var stórt tækifæri og verður stórt mót á næsta ári sem við verðum ekki þáttakendur í. Svo hefst að greina hvað fór úrskeiðis, ekki bara í þessum leik heldur í allri undankeppninni. Það er bara staðreynd, ef að þér mistekst eitthvað áætlunarverk að þá er eitthvað að. Það er spurning hversu mikið eða lítið það er, en það er klárlega eitthvað sem þarf að laga fyrir næstu undankeppni,“  sagði Arnar að lokum.


Athugasemdir
banner