Valur er einum sigri frá því að tryggja sér annað sæti Bestu deildar karla eftir að liðið lagði Stjörnuna að velli, 2-0, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.
Það var fjör á báðum endum vallarins. Fyrst átti Guðmundur Kristjánsson skot sem Sveinn Sigurður Jóhannesson varði og hinum megin átti Tryggvi Hrafn Haraldsson skot á Árna Snæ Ólafsson sem varði og var Patrick Pederson nálægt því að fylgja eftir.
Aron Jóhannsson átti skot af löngu færi en það þaut rétt framhjá markinu.
Undir lok hálfleiksins kom fyrsta mark leiksins er Birkir Heimisson skoraði með skoti úr teignum. Pederson fékk boltann, reyndi fyrirgjöf sem fór af Stjörnumanni og til Birkis sem setti hann snyrtilega í netið.
Tveimur mínútum síðar féll Emil Atlason í teig Valsmanna en ekkert dæmt. Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnumanna, var allt annað en sáttur á hliðarlínunni.
Snemma í síðari hálfleiknum voru það Valsmenn sem vildu fá víti er boltinn virtist fara í höndina á Örvari Loga Örvarssyni, en Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, ráðfærði sig við aðstoðardómara áður en hann tók ákvörðun um að dæma hornspyrnu. Í endursýningunni virtist þetta vera röng ákvörðun.
Sigurður Egill Lárusson komst nálægt því að tvöfalda forystu Valsmanna er hann átti þrumuskot rétt fyrir utan teig en boltinn rétt framhjá markinu.
Stjörnumenn reyndu að finna lausnir í sóknarleiknum en Sveinn Sigurður var afar öruggur í sínum aðgerðum.
Emil Atla og Jóhann Árni Gunnarsson fengu tvö góð færi undir lok leiks. Fyrst skallaði Emil yfir markið og þá varði Sveinn skot Jóhanns.
Valsmenn refsuðu á lokasekúndum leiksins er Tryggvi Hrafn sendi Hlyn Frey Karlsson aleinan í gegn, sem setti boltann á milli fóta Árna og í netið. Hlynur tók svakalegan sprett upp allan völlinn og því extra sætt fyrir hann að klára færið.
Valur fagnar 2-0 sigri á Stjörnunni og frestar því fagnaðarlátum Víkinga, sem hefðu getað orðið Íslandsmeistarar ef Valur hefði tapað stigum í kvöld. Valur er með 48 stig í öðru sæti og einum sigri frá því að tryggja annað sætið.
Víkingur getur orðið meistari á miðvikudag er liðið spilar við KR í Víkinni.
Athugasemdir