Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 19. maí 2024 22:19
Ívan Guðjón Baldursson
Mjólkurbikar kvenna: Rangur vítaspyrnudómur réði úrslitum í Garðabæ
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Stjarnan 3 - 4 Breiðablik
0-1 Birta Georgsdóttir ('1)
0-2 Ásta Eir Árnadóttir ('22)
1-2 Caitlin Meghani Cosme ('25)
1-3 Agla María Albertsdóttir ('55)
2-3 Andrea Mist Pálsdóttir ('57)
3-3 Esther Rós Arnarsdóttir ('88)
3-4 Agla María Albertsdóttir ('100 , víti)
Rautt spjald: Agla María Albertsdóttir, Breiðablik ('115)

Lestu um leikinn: Stjarnan 3 -  4 Breiðablik

Það var ótrúlega skemmtilegum leik að ljúka í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna þegar Stjarnan tók á móti Breiðabliki.

Blikar fóru betur af stað og komust í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik. Birta Georgsdóttir skoraði eftir um 40 sekúndna leik og tvöfaldaði Ásta Eir Árnadóttir forystuna á 22. mínútu með skemmtilegu skoti eftir hornspyrnu.

Það leið þó ekki á löngu þar til Caitlin Cosme minnkaði muninn með skalla fyrir Stjörnuna og var staðan 1-2 í hálfleik þrátt fyrir góðar tilraunir Blika til að tvöfalda forystuna á ný.

Agla María Albertsdóttir komst nálægt því að skora nokkrum sinnum áður en hún loks setti boltann í netið á 55. mínútu til að auka forystu Blika aftur í tvö mörk, en Stjörnukonur voru ekki á því að gefast upp og minnkuðu muninn strax aftur.

Í þetta sinn var það Andrea Mist Pálsdóttir sem skoraði laglegt mark með föstu skoti beint úr aukaspyrnu og staðan orðin 2-3.

Blikar héldu eins marks forystu allt þar til á lokamínútunum, þegar Esther Rós Arnarsdóttir jafnaði leikinn eftir langa sendingu upp völlinn. Esther gerði vel að vinna boltann af Ástu Eir og gera jöfnunarmarkið, en nokkrum sekúndum áður voru Blikar næstum því búnir að innsigla sigurinn á hinum enda vallarins.

Jöfnunarmarkið hélt þrátt fyrir dauðafæri hjá Blikum í uppbótartíma og því var framlenging flautuð á. Þar fengu þær hvítklæddu dæmda vítaspyrnu á 99. mínútu og skoraði Agla María af vítapunktinum.

Stjörnukonur kvörtuðu sáran undan vítaspyrnudóminum og sýndu endursýningar að Vigdís Lilja rann í grasinu innan vítateigs án snertingar frá andstæðingi. Það er ekkert VAR í íslenska boltanum og því stóð vítaspyrnudómurinn.

Í síðari hálfleik framlengingarinnar fékk Agla María að líta sitt seinna gula spjald fyrir tæklingu en tíu Blikar náðu að halda forystunni til leiksloka og tryggja sér þannig áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner