„Lykillinn var trúin hjá strákunum á að við gætum klárað þetta. Við komumst yfir, svo jafnar Grótta og í hálfleik töluðum við um að við þyrftum að hafa trú á því sem við værum að gera. Við gerðum það og mér fannst við vera talsvert betri aðilinn í seinni hálfleik, verðskulduðum þessi mörk og hefðum getað skorað fleiri þess vegna," sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, við Fótbolta.net í dag.
Afturelding vann 1-4 útisigur á Gróttu í 13. umferð Lengjudeildarinnar í gær.
Afturelding vann 1-4 útisigur á Gróttu í 13. umferð Lengjudeildarinnar í gær.
„Mér fannst við byrja frekar rólega, án þess að þeir væru að skapa sér mikið af færum, svo komumst við yfir og mér fannst varnarleikurinn í heild góður - betri en í síðustu leikjum. Við fengum fá færi á okkur og það var til fyrirmyndar hvernig menn nálguðust varnarleikinn. Við gerðum vel í okkar sóknum og gaman að sjá fremstu menn og mennina sem komu inn á leggja helling að borðinu. Þetta var liðsheildarsigur."
„Öll mörkin voru góð og annað markið var sérstaklega gott. Það var langur spilkafli þar sem við enduðum á því að komast inn í teiginn hjá þeim, boltinn lagður út í teig í skot sem var klárað. Það var virkilega flott liðsmark, margar sendingar á bakvið það. Ég var ánægður með bæði sóknar- og varnarleikinn í gær, hörku frammistaða sem gefur vonandi góð fyrirheit fyrir framhaldið."
Staðan var 1-1 á 75. mínútu, var ekkert stress?
„Nei, við höfðum allan tímann trú á þessu og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við erum að klára leiki í lokin. Það er mikil trú hjá okkur og við höfum sýnt karakter í leikjum þegar allt er jafnt, þá stígum við upp í lokin. Ég hafði alltaf fulla trú á að við værum að fara klára þetta, var ekki einu sinni farinn að líta á klukkuna. Ég vissi að við myndum setja a.m.k. eitt mark í viðbót og klára þetta."
Aron Jóhannsson kom inn á sem varamaður og skoraði markið á 76. mínútu sem kom Aftureldingu yfir.
„Við erum með marga öfluga miðjumenn. Þeir sem komu inn á í síðasta leik stóðu sig vel og verðskulduðu tækifærið. Við erum með hörkulið, allir sem komu inn á í gær lögðu mikið í verkefnið og það var sama í leiknum á undan. Það er samkeppni um stöður í liðinu, heppnir að vera með marga öfluga leikmenn, Aron kom frábærlega inn í gær, skoraði mark og átti stóran þátt í öðru marki. Það var nákvæmlega það sem ég vildi fá. Hann hefur verið óheppinn í sumar að skora ekki fleiri mörk, verið nálægt því, komist í góðar stöður og verið sentímetraspursmál. Í gær var boltinn undir slánni en ekki yfir henni."
Afturelding er í 8. sæti, tveimur stigum frá 3. sætinu sem stendur. Hvernig horfir Maggi á töfluna?
„Ég horfi eiginlega ekkert á þessa töflu af því að það þýðir ekkert. Hún var allt öðruvísi fyrir tveimur vikum og verður pottþétt allt öðruvísi eftir tvær vikur, því þetta er svo ógeðslega jafnt. Maður skilur svo sem af hverju Lengjan er að kosta þessa deild, því ég hef ekki nokkra trú á því að það sé nokkur að græða með því að tippa á Lengjunni á þessa deild. Þetta er allt þvers og kruss út um allt. Þetta er spennandi deild en það eina sem maður þarf að spá í eru næstu vikur hjá okkur. Ég get ekki verið að spá í því sem hin liðin eru að gera."
„Næsta verkefni er heimaleikur á móti Keflavík á fimmtudaginn og ég vonast til að fá sömu stemningu innan vallar þar. Að sama skapi væri skemmtilegt að sjá áhorfendur mæta á Varmá og mynda stemningu með okkur, það var góð stemning á Nesinu í gær og það væri gaman að sjá góða stemningu á fimmtudaginn," sagði Maggi.
Grótta 1 - 4 Afturelding
0-1 Elmar Kári Enesson Cogic ('19 )
1-1 Arnar Þór Helgason ('36 )
1-2 Aron Jóhannsson ('76 )
1-3 Arnar Þór Helgason ('78, sjálfsmark )
1-4 Elmar Kári Enesson Cogic ('82 )
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. ÍBV | 22 | 11 | 6 | 5 | 50 - 27 | +23 | 39 |
2. Keflavík | 22 | 10 | 8 | 4 | 37 - 24 | +13 | 38 |
3. Fjölnir | 22 | 10 | 7 | 5 | 34 - 28 | +6 | 37 |
4. Afturelding | 22 | 11 | 3 | 8 | 39 - 36 | +3 | 36 |
5. ÍR | 22 | 9 | 8 | 5 | 30 - 28 | +2 | 35 |
6. Njarðvík | 22 | 8 | 9 | 5 | 34 - 29 | +5 | 33 |
7. Þróttur R. | 22 | 8 | 6 | 8 | 37 - 31 | +6 | 30 |
8. Leiknir R. | 22 | 8 | 4 | 10 | 33 - 34 | -1 | 28 |
9. Grindavík | 22 | 6 | 8 | 8 | 40 - 46 | -6 | 26 |
10. Þór | 22 | 6 | 8 | 8 | 32 - 38 | -6 | 26 |
11. Grótta | 22 | 4 | 4 | 14 | 31 - 50 | -19 | 16 |
12. Dalvík/Reynir | 22 | 2 | 7 | 13 | 23 - 49 | -26 | 13 |
Athugasemdir