lau 21. mars 2020 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ferdinand tæki Grealish: Það er hroki í honum
Jack Grealish.
Jack Grealish.
Mynd: Getty Images
Miðjumennirnir Jack Grealish og Jack Maddison eru báðir sterklega orðaðir við Manchester United fyrir sumarið. Rio Ferdinand myndi taka fyrirliða Aston Villa, Grealish, fram yfir Leicester-manninn Maddison.

Bæði Grealish og Maddison hafa spilað mjög vel í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Þeir eru báðir á óskalista United, en talið er líklegt að aðeins annar þeirra endi á Old Trafford.

„Grealish eða Maddison? Það er góð spurning," sagði Ferdinand, sem er goðsögn hjá Manchester United, er hann svaraði spurningum aðdáenda á Instagram.

„Þeir eru báðir á miklu flugi og hafa báðir staðið sig ótrúlega vel síðasta árið. Þeir eru mjög öðruvísi leikmenn. Maddison er leikmaður sem getur fengið boltann og dreift honum áfram. Hann getur skorað, lagt upp, skapað færi. Hann er skarpur leikmaður og kemur sér í góða stöður til að skapa eitthvað. Hann er mjög góður fótboltamaður."

„Grealish gerir allt það sama en hann hefur eitt fram fyrir enska leikmenn eins og Dele Alli, Maddison og Mason Mount. Grealish getur tekið leikmenn á. Grealish fær boltann og hann dregur leikmenn að sér og opnar fyrir liðsfélaga sína."

„Það er það sem ég kann vel við Grealish. Það er líka smá hroki í honum. Hann veit að hann er góður leikmaður. Ég myndi taka Grealish frekar."
Athugasemdir
banner
banner
banner