Í dag hófst 2. deild kvenna og voru fjórir fyrstu leikir deildarinnar spilaðir. Það var mikil harka í þessum leikjum og fengu þrír leikmenn að líta rauða spjaldið í þessari fyrstu umferð.
Grindavík, sem spáð er efsta sæti deildarinnar, tapaði fyrsta leik sínum í deildinni gegn Hömrunum á Akureyri. Birgitta Hallgrímsdóttir kom Grindavík yfir á sjöundu mínútu, en Iðunn Rán Gunnarsdóttir var fljót að jafna fyrir heimakonur. Á 20. mínútu fékk Birgitta, markaskorari Grindavíkur, svo að líta rauða spjaldið.
Grindavík virtist ætla að landa stiginu einum færri, en þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma komust Hamrarnir í 2-1 með marki frá Steingerði Snorradóttur. Það reyndist sigurmarkið og Hamrarnir með sigur í fyrsta leik gegn liðinu sem spáð er efsta sæti. Hömrunum er spáð fjórða sæti í sömu spá.
Sameiginlegt lið Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis vann Fram í mjög dramatískum fótboltaleik. Fram komst í 2-1 á 74. mínútu, 20 mínútum eftir að hafa misst leikmann af velli með rautt spjald. Fjarðab/Höttur/Leiknir jafnaði á 78. mínútu og komst svo yfir rúmum tíu mínútum síðar.
Í uppbótartímanum voru skoruð þrjú mörk, hvorki meira né minna og lokatölur 5-3 fyrir Fjarðab/Hetti/Leiknis í þessum rosalega leik. Freyja Karín Þorvarðardóttir gerði þrennu fyrir Fjarðab/Hött/Leiknir og Adna Mesetovic skoraði tvö.
HK vann 3-0 sigur á Hamri þar sem Kópavogsfélagið skoraði tvisvar eftir að hafa misst leikmann af velli með rautt spjald.
Þá vann ÍR góðan heimasigur á Sindra, 2-1, í Breiðholtinu þar sem Unnur Elva Traustadóttir skoraði bæði mörk ÍR.
Fjarðab/Höttur/Leiknir 5 - 3 Fram
1-0 Freyja Karín Þorvarðardóttir ('2)
1-1 Ásdís Arna Sigurðardóttir ('12)
1-2 Salka Ármannsdóttir ('74)
2-2 Adna Mesetovic ('78)
3-2 Freyja Karín Þorvarðardóttir ('89)
4-2 Adna Mesetovic ('96)
4-3 Sigurlaug Sara Þórsdóttir ('97)
5-3 Freyja Karín Þorvarðardóttir ('98)
Rautt spjald: Þóra Rún Óladóttir, Fram ('54)
ÍR 2 - 1 Sindri
1-0 Unnur Elva Traustadóttir ('13)
2-0 Unnur Elva Traustadóttir ('30)
2-1 Arna Ósk Arnarsdóttir
HK 3 - 0 Hamar
1-0 Sjálfsmark ('23)
2-0 María Lena Ásgeirsdóttir ('77)
3-0 María Lena Ásgeirsdóttir ('91)
Rautt spjald: Ragnheiður Kara Hálfdánardóttir, HK ('74)
Hamrarnir 2 - 1 Grindavík
0-1 Birgitta Hallgrímsdóttir ('7, víti)
1-1 Iðunn Rán Gunnarsdóttir ('12)
2-1 Steingerður Snorradóttir ('89)
Rautt spjald: Birgitta Hallgrímsdóttir, Grindavík ('20)
Athugasemdir