Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-7 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. Grindavík
2. HK
3. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir
4. Hamrarnir
5. Sindri
6. Álftanes
7. ÍR
8. Fram
9. Hamar
Lokastaða í fyrra: 9. sæti í 1. deild
Þjálfari: Ray Anthony Jónsson þjálfar lið Grindavíkur líkt og tvö undanfarin tímabil. Ray lék með Grindavík um árabil og er fyrrum landsliðsmaður Filippseyja.
Grindavík hefur fallið um tvær deildir á tveimur árum og nú á að byggja upp framtíðarlið þar sem ungar heimastelpur verða í aðalhlutverki. Margir ungir leikmenn fengu sína eldskírn síðasta sumar og koma reynslunni ríkari til leiks í ár. Grindavík heldur erlenda markmanninum Veronicu Smeltzer og munar um minna.
Lykilmenn: Veronica Smeltzer, Birgitta Hallgrímsdóttir, Guðný Eva Birgisdóttir
Gaman að fylgjast með: Unnur Stefánsdóttir er 16 ára sóknarmaður sem sýndi flotta takta í 1. deildinni í fyrra og verður vert að fylgjast með í 2. deild í sumar.
Við heyrðum í Ray þjálfara og spurðum út í spánna og sumarið:
„Spáin kemur mér ekkert á óvart þar sem að við spiluðum í deildinni fyrir ofan í fyrra og þá eru yfirleitt spár þjálfara og fyrirliða þannig að liðin sem að voru í deildinni fyrir ofan, eiga að vera í efri hlutanum."
„Markmið okkar í sumar er einmitt þessi spá. Við ætlum okkur upp og ekkert annað," sagði Ray sem segist ekki finna fyrir pressu um að fara með liðið upp um deild.
„Ekki nema þá frá sjálfum mér. Við höfum vitað af markmiðinu okkar síðan við byrjuðum að æfa í vetur og stelpurnar hafa æft þannig að við ætlum okkur að fara upp og við gerum það."
Eru miklar breytingar á Grindavíkurliðinu frá í fyrra?
„Nei, ekki miklar. Við fengum hvorki Shannon né Nicole til baka frá Bandaríkjunum því okkur fannst kominn tími á heimastúlkur að stíga upp og taka við keflinu. Hins vegar fengum við Veronicu Smeltzer til baka frá því í fyrra í markið," segir Ray sem á von á tvískiptri deild og harðri toppbaráttu.
„Ég held að deildin verði tvískipt. Fjögur til fimm lið verða þarna í efri hlutanum að berjast um að komast upp."
Komnar:
Berglind Rún Þorsteinsdóttir frá Keflavík
Birgitta Hallgrímsdóttir frá Keflavík
Birta Kjærnested Jóhannsdóttir frá FH
Farnar:
Shannon Simon
Helga Guðrún Kristinsdóttir í Stjörnuna
Ástrós Lind Þórðardóttir í Fjölni
Nicole C. Maher
Brynja Pálmadóttir í Keflavík
Una Margrét Einarsdóttir í Keflavík
Fyrstu leikir Grindavíkur:
21. júní Hamrarnir - Grindavík
27. júní Hamar - Hamrarnir
2. júlí ÍR - Grindavík
Athugasemdir