Fjallað var um það hér á Fótbolti.net á mánudag að erlent félag væri að reyna kaupa Stefán Inga Sigurðarson af Breiðabliki. Félagið er frá Belgíu og verður í B-deildinni (Challenger Pro League) á næsta tímabili.
Patro Eisden sem er í Maasmechelen í Limburg héraði er að reyna kaupa Stefán og samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru viðræðurnar vel á veg komnar og mun meiri líkur en minni á að skiptin gangi gegn.
Patro Eisden sem er í Maasmechelen í Limburg héraði er að reyna kaupa Stefán og samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru viðræðurnar vel á veg komnar og mun meiri líkur en minni á að skiptin gangi gegn.
Stefán Ingi, sem er uppalinn Bliki, er með átta mörk í ellefu leikjum í Bestu deildinni og eitt mark í þremur bikarleikjum. Hann er 22 ára framherji sem útskrifaðist frá Boston College í desember.
Það er spurning hvort að Blikar nái að sannfæra Belgana um að leyfa sér að halda Stefáni eitthvað fram eftir sumri en tímabilið í Belgíu byrjar í byrjun ágúst og glugginn í Belgíu lokar 6. september.
Um félagið
Patro Eisden vann belgísku C-deildina í vetur og verður því í næstefstu deild á komandi tímabili. Bandarísku eigendur félagsins, Common Group, eiga einnig Vitesse í Hollandi og Leyton Orient á Englandi.
Félagið spilar á Patrostadion og lék U19 ára landslið Íslands á leikvanginum árið 2019 þegar liðið mætti Grikkjum.
Að minnsta kosti tveir fyrrum leikmenn félagsins hafa spilað á Íslandi. Það eru þeir Michael Kedman (Fylkir, Þróttur Vogum) og Marko Vardic (núverandi leikmaður Grindavíkur). Þá lék Prince Rajcomar með liðinu á sínum tíma eftir að hafa spilað með KR og Breiðabliki á Íslandi.
Um B-deildina
Á næsta tímabili verður breyting á B-deildinni, fjölgað verður úr 12 liðum í 16 og munu tvö félög fara beint upp eins og áður, nema liðin í 3.- 6. sæti munu svo berjast um möguleikann á einu lausu sæti í viðbót í deild þeirra bestu í sex umferða úrslitakeppni. Sigurvegarinn í því umspili mætir svo þriðja neðsta liðinu í efstu deild í úrslitaleik um hvort liðið spilar í efstu deild. Allt saman mjög einfalt og þægilegt.
Tveir Íslendingar eru samningsbundnir félögum í deildinni. Það eru þeir Nökkvi Þeyr Þórisson og Kolbeinn Þórðarson. Nökkvi er hjá Beerschot sem ætlaði sér upp á síðasta tímabili en endaði í 3. sæti og Kolbeinn er hjá Lommel.
Athugasemdir