Elísabet Gunnarsdóttir var á dögunum ráðin sem landsliðsþjálfari Belgíu. Beta, eins og hún er oftast kölluð, var farið að kitla í puttana að þjálfa aftur en hún hætti með Kristianstad í Svíþjóð árið 2023.
Beta var fyrir stuttu orðuð við enska stórliðið Chelsea en hún talaði aðeins um það í viðtali við Fótbolta.net í gær.
Beta var fyrir stuttu orðuð við enska stórliðið Chelsea en hún talaði aðeins um það í viðtali við Fótbolta.net í gær.
Hún sagði frá því í viðtalinu að hún hefði farið langt í ferli með Portland Thorns, sem er stórt félag í Bandaríkjunum. „Ef ég hefði fengið það starf, þá hefði ég tekið það," sagði Elísabet.
„Svo var ég önnur af síðustu tveimur hjá Chelsea. Ég myndi líka segja að það hafi verið nálægt."
„Það var ótrúlegt langt ferli. Það eru þessi tvö störf sem ég var næst. Ég hef farið í þriggja eða fjögurra viðtala ferli við önnur félög og landslið sem hefur þá klikkað á hinum endanum eða ég þá fundið að það sé eitthvað sem ég hafi ekki viljað gera."
Emma Hayes hætti með Chelsea til að taka við bandaríska landsliðinu. Á endanum var Sonia Bompastor frá Frakklandi ráðin í hennar stað. Chelsea er eitt stærsta félagið á Englandi og hefur orðið Englandsmeistari núna fimm sinnum í röð.
„Það var ákveðið draumastarf, alveg 100 prósent. Það var ótrúlega gaman að fá að taka þátt í því ferli og það hefði verið draumur að fá starfið. Ég gerði mér alveg grein fyrir því allan tímann að þetta er eitt stærsta starfið í kvennaboltanum í dag og ég ekki stærsti prófíllinn. Ég gerði mér grein fyrir því að það yrði erfitt að fara alla leið."
„Það var gaman að vita að ég hafi tikkað í mörg box þar og gott að taka það með sér," segir Elísabet en hún var einnig orðuð við Aston Villa áður en hún tók við belgíska landsliðinu.
Allt viðtalið er hægt að hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir