Rúben Amorim svaraði spurningum eftir 2-2 jafntefli Manchester United á útivelli gegn Everton í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Everton var talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Rauðu djöflarnir vöknuðu til lífsins er tók að líða á seinni hálfleikinn og tókst að lokum að bjarga stigi.
„Þegar maður spilar leik án þess að mæta í fyrri hálfleikinn og er 2-0 undir í leikhlé, þá er gott að ná í stig. Við þurftum samt þrjú stig í dag, við þurftum sigur," sagði Amorim við fréttamenn TNT Sports.
„Það versta við frammistöðuna í dag var að við töpuðum alltof mörgum boltum án þess að vera undir neinni pressu og við vorum alltof mjúkir. Við börðumst ekki um seinni boltana, við vorum ekki á staðnum. Í hálfleik bað ég leikmenn um að halda sig við okkar hugmyndafræði og þá byrjuðu hlutirnir að ganga upp, það var mikil bæting á milli hálfleikja. Þess vegna gerði ég enga skiptingu í hálfleik.
„Eina leiðin fyrir okkur er að halda áfram á sömu braut. Við þurfum að einbeita okkur að einum degi í einu. Við þurfum að lifa þetta tímabil af og svo getum við hugsað um framtíðina."
Man Utd er í 15. sæti ensku deildarinnar, með 30 stig eftir 26 umferðir. Lærlingar Amorim eru heppnir að vera heilum 13 stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Athugasemdir