Everton 2 - 2 Manchester Utd
1-0 Beto ('19 )
2-0 Abdoulaye Doucoure ('33 )
2-1 Bruno Fernandes ('72 )
2-2 Manuel Ugarte ('80 )
1-0 Beto ('19 )
2-0 Abdoulaye Doucoure ('33 )
2-1 Bruno Fernandes ('72 )
2-2 Manuel Ugarte ('80 )
Everton og Manchester United gerðu 2-2 jafntefli í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Goodison Park í dag. Heimamenn fóru með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn, en aukaspyrnumark Bruno Fernandes í síðari hálfleik kveikti neistann og tókst United að bjarga stigi á lokakafla leiksins.
Amorim tók við United í nóvember og ákvað strax að koma fyrir hugmyndafræði sinni. Hann vill spila með þriggja manna varnarlínu en er ekki með hópinn í það.
Liðið hefur verið ósannfærandi í stjóratíð Amorim á meðan Everton hefur verið á skriði síðan David Moyes snéri aftur og kom því lítið á óvart að þeir bláu hafi verið með völdin í byrjun leiks.
Everton pressaði United hátt uppi og vonaðist til kreista fram mistök frá United.
Á 19. mínútu dró til tíðinda eftir afburða slakan varnarleik hjá United. Everton fékk hornspyrnu sem leikmenn United áttu í mestu vandræðum með að hreinsa frá. Eftir skallatennis milli manna datt boltinn inn fyrir á Beto sem skoraði með föstu skoti.
Fjórtán mínútum síðar gerði Abdoulaye Doucoure annað markið eftir enn slakari varnarleik. Boltinn kom úti hægra megin á Beto sem sendi boltann fyrir á Jack Harrison. Hann náði að snúa Harry Maguire af sér áður en hann skaut en André Onana varði boltann upp í loftið.
Doucoure mætti á ferðinni, hoppaði upp í skallaeinvígi við Maguire og skoraði með skalla. Maguire leit skelfilega út í markinu og lenti allt of auðveldlega undir í einvíginu.
United-menn komu aðeins öflugari inn í síðari hálfleikinn en vörn Everton hélt vel. Jarrad Branthwaite var að eiga besta leik tímabilsins í miðverðinum.
Það vantaði mikinn ákafa í leik United en það þurfti einstaklingsframtak til að koma liðinu aftur inn í leikinn og kom það frá fyrirliðanum Bruno Fernandes sem skoraði úr laglegri aukaspyrnu af 20 metra færi.
Fyrsta aukaspyrnumark United síðan Cristiano Ronaldo skoraði gegn Norwich fyrir þremur árum.
Markið gaf United líflínu og fór Everton í það að verja eins marks forystu sem voru stór mistök því aðeins nokkrum mínútum síðar jöfnuðu United-menn. Fernandes kom með aukaspyrnu inn á teiginn og var það Beto sem hreinsaði boltann út á Manuel Ugarte sem tók boltann á kassann og skaut boltanum efst í vinstra hornið.
Stuðningsmenn United fengu í sömu andrá meiri orku og hvöttu sína menn áfram. United fór í leit að sigurmarki, en vörn Everton náði að halda.
Þá fékk Beto tækifæri til að stela öllum stigunum fyrir Everton undir lok venjulegs leiktíma en skalli hans fór beint á Onana í markinu. Dauðafæri hjá Beto sem hefur verið sjóðandi heitur síðustu daga.
Seint í uppbótartíma dæmdi Andy Madley, dómari leiksins, vítaspyrnu á United. Harry Maguire og Matthijs De Ligt virtust toga Ashley Young niður í grasið, en Madley var sendur að skjánum til að skoða atvikið betur. Eftir að hafa skoðað það betur ákvað hann að taka dóminn til baka og engin vítaspyrna dæmd. David Moyes, stjóri Everton, skildi ekkert í ákvörðun Madley.
2-2 jafntefli niðurstaðan á Goodison Park. Everton eflaust svekkt með að hafa ekki landað öllum stigunum eftir að hafa verið mun betra liðið framan af en á sama tíma ljós í myrkrinu fyrir Amorim og United sem sýndi mikinn styrk að koma til baka úr erfiðri stöðu.
Everton fer upp í 12. sæti deildarinnar með 31 stig en United í 15. sæti með 30 stig.
Athugasemdir