Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   mið 23. október 2024 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óvissa með lykilmenn Víkings - „Þetta eru Rodri, Van Dijk og De Bruyne"
Víkingar fagna marki í sumar.
Víkingar fagna marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valdimar er að glíma við meiðsli.
Valdimar er að glíma við meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, segir að það sé óvissa með ákveðna leikmenn fyrir næstu tvo leiki liðsins.

Víkingar mæta Cercle Brugge frá Belgíu í Sambandsdeildinni á morgun og svo er komið að stærsta leik tímabilsins á sunnudaginn þegar Breiðablik er andstæðingurinn. Leikurinn gegn Blikum mun skera úr um það hvaða lið verður Íslandsmeistari.

„Staðan á hópnum er eins og hún hefur verið síðustu vikur. Það er óvissa með Valdimar (Þór Ingimundarson) og Oliver (Ekroth). Pablo er frá og Matti er frá. Þetta eru lykilmenn í okkar hópi, leikmenn sem þú vilt ekki vera án í stórleikjum. Þetta eru Rodri, Van Dijk og De Bruyne," sagði Arnar í samtali við Fótbolta.net.

„Hópurinn hefur verið alveg ótrúlega þéttur og góður í sumar; alltaf staðið upp þegar meiðslaáföll hafa dunið yfir. Það er ekkert að fara að breytast núna. Við munum mæta með sterk lið í báða þessa leiki."

Það er svaka leikur á undan
Það eru flestir að tala um leikinn gegn Breiðabliki en það er líka stór leikur í Sambandsdeildinni á morgun.

„Það er okkar að minna menn á að það er svaka leikur á undan. Leikurinn gegn Cercle Brugge verður okkar erfiðasti leikur í sumar. Með fullri virðingu fyrir Blikaleiknum þá verður Cercle Brugge töluvert sterkari andstæðingur. Það verður gríðarlega erfitt verkefni. Við þurfum að einbeita okkur að því fyrst áður en hausinn fyrir Breiðablik," segir Arnar.

Það er stutt á milli þessara tveggja stóru leikja.

„Í þessa tvo leiki, þá held ég að adrenalíntilfinningin muni taka yfir sama hversu þreyttur þú verður. Hún mun fara með þig yfir línuna. Í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn viltu fá aðeins meiri hvíld eftir risastóran Evrópuleik. En ég er að vonast eftir því að það skipti engu máli þegar adrenalínið tekur yfir. Ég vona að leikmennn verði ferskir bæði andlega og líkamlega," segir þjálfari Víkinga.

Maður er mikið að pæla í þessu
Sefurðu mikið þegar það eru svona stórir leikir framundan?

„Ekkert svakalega mikið. Við erum líka með eina sex ára og eina átta ára heima. Maður er mikið að pæla í þessu. Það er mikið að spá og spekúlera. Þú hefur líka áhyggjur af þeim leikmönnum sem eru að fara að missa af þessu út af meiðslum. Við finnum leið til að vera með gott lið en þú ert leiður fyrir þeirra hönd að missa af þessu. Þú ferð á mannlega skalann og hugsar um það hvernig leikmenn hafa það."

„Við verðum að vera klókir gegn Brugge að stilla upp sterku liði en við megum ekki við því að missa fleiri lykilmenn fyrir úrslitaleikinn. Þetta er svipað og ef Breiðablik myndi missa Höskuld og Ísak sem eru þeirra lykilmenn. Liðið veikist en hópurinn er búinn að vera alveg ótrúlegur í sumar. Það hafa ungir strákar stigið upp. Menn hugsa um þessa tvo leiki núna og svo geta þeir farið í smá frí," sagði Arnar að lokum.
Athugasemdir
banner