Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 23. nóvember 2021 21:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeildin: Chelsea á flugi - Barcelona í vandræðum
Chelsea valtaði yfir Juventus.
Chelsea valtaði yfir Juventus.
Mynd: EPA
Callum Hudson-Odoi fagnar marki sínu.
Callum Hudson-Odoi fagnar marki sínu.
Mynd: EPA
Lærisveinar Xavi í Barcelona eru í vandræðum.
Lærisveinar Xavi í Barcelona eru í vandræðum.
Mynd: EPA
Það var mikil dramatík í Sviss.
Það var mikil dramatík í Sviss.
Mynd: EPA
Chelsea sýndi gæði sín er þeir mættu Juventus í fimmtu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.

Lærisveinar Thomas Tuchel þurftu á sigri að halda gegn Juventus til að koma sér í kjörstöðu í H-riðlinum. Juventus vann nefnilega Chelsea á Ítalíu og var með yfirhöndina í innbyrðis viðureignum liðanna.

Chelsea var með stjórn frá upphafi til enda á Brúnni í kvöld. Varnarmaðurinn Trevoh Chalobah hefur komið á óvart með frammistöðu sinni á tímabilinu og hann heldur bara áfram að láta ljós sitt skína. Hann skoraði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu.

Reece James og Callum Hudson-Odoi bættu við tveimur mörkum með stuttu millibili í seinni hálfleik og það reyndist of mikið fyrir Juventus að yfirstíga. Fyrstu þrír markaskorarar Chelsea í kvöld koma allir úr akademíu félagsins sem er mjög virðingarvert.

Timo Werner gerði fjórða markið í uppbótartíma og lokatölur því 4-0 fyrir Chelsea. Algjörlega frábær úrslit fyrir Lundúnaliðið; Juventus sá ekki til sólar.

Chelsea er núna í kjörstöðu að vinna riðilinn. Bæði Chelsea og Juventus eru með 12 stig, en Chelsea er með yfirhöndina í innbyrðis viðureignum. Chelsea mætir Zenit á útivelli í lokaumferð riðilsins og með sigri þar tryggir liðið sér efsta sæti.

Í hinum leik H-riðilsins var dramatík undir lokin þar sem Zenit jafnaði í uppbótartíma gegn Malmö. Zenit fékk tvær vítaspyrnur í leiknum og skoraði úr þeirri seinni. Zenit endar í þriðja sæti riðilsins og Malmö í því fjórða.

Barcelona í vandræðum
Xavi stýrði Barcelona öðru sinni í kvöld er liðið mætti Benfica á heimavelli. Barcelona var sterkari aðilinn í leiknum en náði ekki að brjóta sér leið inn í markið. Lokaniðurstaðan var markalaust jafntefli á Nývangi.

Þetta eru slæm úrslit fyrir Börsunga, mjög slæm. Þeir eru tveimur stigum á undan Benfica fyrir lokaumferðina, en Barcelona á Bayern München í lokaleik sínum - á útivelli. Bayern hefur unnið alla leiki til þessa. Benfica spilar á meðan við Dynamo Kiev á heimavelli. Barcelona dugir ekki jafntefli ef Benfica vinnur sinn leik.

Mikil dramatík í Sviss
Í F-riðlinum var mikil dramatík þegar Young Boys og Atalanta skildu jöfn. Liðið frá Sviss sýndi mikinn karakter með því að komast yfir á 84. mínútu, en þeir misstu sigurinn frá sér.

Young Boys var 1-2 undir þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Þeir gáfust ekki upp og skoruðu tvisvar á fimm mínútna kafla. Það reyndust ekki síðustu mörk leiksins því Luis Muriel jafnaði á 88. mínútu. Lokatölur 3-3 og eru Atalanta og Villarreal jöfn að stigum fyrir lokaumferðina í riðlinum.

Manchester United er búið að tryggja sér sigur í riðlinum, en svo koma Villarreal og Atalanta með sjö stig. Young Boys er með fjögur stig. Man Utd tekur á móti Young Boys í lokaumferðinni og þá eigast Atalanta og Villarreal við í úrslitaleik um að fara áfram með United.

Allt opið í G-riðlinum
Það er mesta spennan í G-riðlinum fyrir lokaumferðina. Þar er allt opið eftir úrslit kvöldsins. Lille vann 1-0 sigur gegn Salzburg og Sevilla lagði Wolfsburg, 2-0.

Lille er á toppnum með átta stig, Salzburg er með sjö stig, Sevilla er með sex stig og Wolfsburg er með fimm stig. Lokaumferðin í þessum riðli verður mjög spennnandi!

E-riðill:
Barcelona 0 - 0 Benfica

F-riðill:
Young Boys 3 - 3 Atalanta
0-1 Duvan Zapata ('10 )
1-1 Theoson Siebatcheu ('39 )
1-2 Jose Luis Palomino ('51 )
2-2 Vincent Sierro ('80 )
3-2 Silvan Hefti ('84 )
3-3 Luis Muriel ('88 )

G-riðill:
Sevilla 2 - 0 Wolfsburg
1-0 Joan Jordan ('12 )
2-0 Rafa Mir ('90 )

Lille 1 - 0 Salzburg
1-0 Jonathan David ('31 )

H-riðill:
Chelsea 4 - 0 Juventus
1-0 Trevoh Chalobah ('25 )
2-0 Reece James ('56 )
3-0 Callum Hudson-Odoi ('58 )
4-0 Timo Werner ('90)

Malmo FF 1 - 1 Zenit
1-0 Soren Rieks ('28 )
1-0 Artem Dzyuba ('53 , Misnotað víti)
1-1 Yaroslav Rakitskiy ('90 , víti)
Rautt spjald: Dmitri Chistyakov, Zenit ('86)

Önnur úrslit:
Meistaradeildin: Ronaldo og Sancho skutu Man Utd áfram
Athugasemdir
banner