Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   mán 25. nóvember 2024 18:21
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Toddi: Age tjáði mér í dag að hann vildi stíga til hliðar
Icelandair
Age Hareide var þjálfari Íslands í 19 mánuði.
Age Hareide var þjálfari Íslands í 19 mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ.
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Í fljótu bragði eru leikmenn, ungir strákar, sem hafa fengið sénsinn, komið inn í hópinn og stækkað hann.'
'Í fljótu bragði eru leikmenn, ungir strákar, sem hafa fengið sénsinn, komið inn í hópinn og stækkað hann.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stýrði Íslandi í 20 leikjum í öllum keppnum. Átta þeirra unnust, jafnteflin voru tvö og töpin tíu.
Stýrði Íslandi í 20 leikjum í öllum keppnum. Átta þeirra unnust, jafnteflin voru tvö og töpin tíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ greindi frá því laust fyrir klukkan fimm í dag að Age Hareide væri hættur sem þjálfari karlalandsliðsins. Hareide tók við liðinu í apríl í fyrra og framundan var gluggi þar sem bæði hann og KSÍ gátu sagt upp samningi hans við sambandið.

Fótbolti.net ræddi við Þorvald Örlyggson, formann KSÍ, og spurði hann út í tíðindi dagsins.

Hver var aðdragandinn að þessu? Var búið að ræða við Hareide um framhaldið?

„Ég átti spjall við Åge í dag, hittumst í dag um tvö leytið og ræddum málin. Åge tjáði mér að hann teldi þetta góðan tíma fyrir hann að stíga til hliðar, fannst þetta réttur tími. Hann er að fara í aðgerð á hné og annað. Hann ákvað að taka þessa ákvörðun," segir Toddi.

Kom þetta þér á óvart?

„Í fótbolta kemur fátt manni á óvart, þegar það eru gluggar þá veit maður aldrei."

Höfðuð þið eitthvað rætt saman áður um framtíðina?

„Það var vitað frá því að ég tók við að það var gluggi núna í lok nóvember þar sem báðir aðilar gátu nýtt sér. Hann nýtti sér þennan glugga núna."

Er ljóst strax á þessum tímapunkti að það verði frekari breytingar á þjálfarateyminu?

„Ekki svo ég viti, ekkert slíkt komið upp. Þessi tíðindi komu bara í dag og ég vænti þess að við reynum að halda sem flestum af þeim sem eru í þjálfarateyminu, horfum fram veginn og byrjum í vikunni að skoða möguleikana í stöðunni."

Í tilkynningu KSÍ segir að leit að nýjum þjálfara sé hafin. Búið er að orða þá Arnar Gunnlaugsson og Frey Alexandersson við starfið síðustu vikur. Er búið að tala við Víking eða Kortrijk?

„Nei, það er ekki búið að tala við nein félög eða neinn þjálfara. Þetta gerðist bara í dag og við byrjum bara á morgun, ég, stjórn og yfirmaður knattspyrnusviðs og veltum fyrir okkur möguleikunum i stöðunni, hvað hentar fyrir okkur og hvaða nöfn eru í boði. Svo vænti ég þess náttúrulega að það verði einhverjir sem leitist eftir því að sækja um starfið"

Er einhver krafa sem verður að uppfylla til að geta fengið starfið?

„Það fer fyrst og fremst eftir því hvað okkur finnst henta fyrir okkur í næstu skrefum, til lengri tíma, næstu tvö, vonandi þrjú árin, með þann hóp sem við höfum. Við munum skoða þá einstaklinga sem möguleiki er að fá og líka þá sem bjóða sig fram. Við munum velta möguleikunum fyrir okkur, vanda okkur og gerum hlutina vel."

Er ánægja með störf Hareide?

„Við munum gefa okkur tíma í það núna að skoða til baka. Í fljótu bragði eru leikmenn, ungir strákar, sem hafa fengið sénsinn, komið inn í hópinn og stækkað hann. Við getum horft til framtíðar, horfum jákvæðum augum fram í tímann. Hvernig við greinum allt síðustu ár, við gefum okkur tíma í það."

Ertu með dagsetningu varðandi hvenær þú vilt vera búinn að ráða nýjan þjálfara?

„Auðvitað vill maður klára það sem fyrst, ná stöðugleika og ró eins fljótt og hægt er. Núna látum við næstu daga líða, skoðum málin og vöndum okkur. Við megum ekki vera of værukær, tíminn líður hratt og við eigum leik í mars. Við viljum koma þjálfara sem fyrst í starfið," segir Toddi.
Athugasemdir
banner
banner