Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   þri 27. júlí 2021 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hlakka til að láta loksins draum 10 ára Ingunnar rætast"
Ingunn er á leið erlendis, til Grikklands.
Ingunn er á leið erlendis, til Grikklands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Verð bara að láta það nægja að fagna sæti í efstu deild á Zoom með stelpunum í haust'
'Verð bara að láta það nægja að fagna sæti í efstu deild á Zoom með stelpunum í haust'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingunn Haraldsdóttir, fyrirliði KR, samdi á dögunum við gríska stórliðið PAOK.

PAOK er sterkasta félagslið Grikklands og leikur í Meistaradeildinni í sumar.

Þetta er gríðarlega spennandi tækifæri fyrir Ingunni, sem er 26 ára gömul og leikur sem varnarmaaður. Hún hefur spilað með KR frá 2017 og í sumar hefur hún leikið tíu leiki í Lengjudeild kvenna.

„Það er búið að blunda í mér að fara út síðan síðasta haust en ég sá ekki fyrir mér að það væri gerlegt út af náminu," segir Ingunn sem er læknanemi.

„Í byrjun sumars fann ég að nú væri góður tímapunktur til að taka ársfrí úr skólanum og reyna á þetta. Ég hafði þá samband við umboðsmann og svo kom þetta tilboð frá PAOK upp í miðjum júlí. Mér fannst það of spennandi tilboð til að hafna."

„Ég veit í raun ekki mikið um félagið. PAOK hefur verið sigursælasta liðið í Grikklandi undanfarin ár og hefur verið í Meistaradeildinni sem fulltrúi grísku deildarinnar. Nú er mikill metnaður í félaginu til að gera enn betur en undanfarin ár og komast lengra í Meistaradeildinni."

Var þetta erfið ákvörðun eða auðveld að fara út á þessum tímapunkti?

„Ég þurfti alveg að melta þetta fram og til baka, enda gerðust hlutirnir nokkuð hratt. En eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti í nokkra daga fann ég að þetta er tækifæri sem ég get ekki sleppt."

Ég flýg út í byrjun ágúst. Ég skrifaði undir tíu mánaða samning svo stefnan er að klára tímabilið þarna úti sem endar í maí. Svo geri ég ráð fyrir að snúa aftur heim og ljúka náminu."

Skilur við KR á toppnum
Ingunn skilur við KR á toppi Lengjudeildarinnar með fimm stiga forskot.

„Ég vonaðist auðvitað til að ná að klára meira af tímabilinu með KR og finnst mjög erfitt að fara frá liðinu á miðju sumri. Við erum hins vegar með frábæran hóp og ég verð bara að láta það nægja að fagna sæti í efstu deild á Zoom með stelpunum í haust," segir Ingunn.

Hún er auðvitað spennt fyrir komandi tímum í sólinni á Grikklandi. „Ég er hrikalega spennt að fá að taka þátt í Meistaradeildinni með PAOK og jafnframt er stefnan auðvitað að verða grískur meistari í vor. Það er ótrúlega gaman hvað hlutirnir hafa breyst hratt undanfarin ár og mikil tækifæri eru í boði fyrir stelpur að fara út í heim. Ég hlakka til að láta loksins draum 10 ára Ingunnar rætast, og það í Grikklandi."
Athugasemdir
banner
banner
banner