Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   þri 27. júlí 2021 17:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Telma reimar aftur á sig takkaskóna: Lítil skref á mínum hraða
Telma á landsliðsæfingu.
Telma á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Telma Hjaltalín Þrastardóttir hefur verið á skýrslu hjá FH í sumar sem sjúkraþjálfari.

Það er hægt að fullyrða það að Telma hefur verið gríðarlega óheppin með meiðsli á sínum ferli. Hún hefur þrisvar slitið krossband á sama hné. Hún spilaði 13 leiki í deild og bikar sumarið 2018 og skoraði í þeim tíu mörk. Hún vann sig inn í A-landsliðið en undir lok tímabilsins sleit hún krossband í þriðja sinn.

Telma, sem er 26 ára, hefur ekki spilað keppnisleik frá því 2018 og sagði hún í fyrra að það væri óvíst hvort hún myndi spila fótbolta aftur.

„Ég veit ekki hvort ég spili fótbolta aftur, það verður að koma í ljós. Ég verð að setja heilsuna fram yfir löngunina, eins leiðinlegt og það hljómar," sagði Telma.

Eftir tapleik gegn Þrótti á dögunum var Guðni Eiríksson, þjálfari FH, spurður út í Telmu. Hann segir að hún sé byrjuð að reima á sig takkaskóna.

„Hún er aðeins byrjuð að reima á sig takkaskóna og við sjáum hvað setur. Það er aldrei að vita (hvort hún spili eitthvað)," sagði Guðni.

Fréttaritari hafði samband við Telmu og spurði hana út í stöðuna.

„Það er rétt það sem Guðni sagði í viðtalinu að ég hef verið að reima á mig takkaskóna. Ég hef verið að taka nokkrar æfingar með FH samhliða því að vera sjúkraþjálfari með liðinu en staðan á mér er enn óljós," segir Telma.

„Ég er lengi búin að vera að hugleiða hvort ég ætti að taka slaginn aftur eða ekki, og það hefur reynst erfitt að sleppa takinu. Hins vegar hef ég ekki spilað fótbolta almennilega í þrjú ár þannig að ég veit ekkert hvernig hnéð bregst við þessu álagi."

„Eins og staðan er núna treysti ég hnénu ekki og er mjög óörugg, þannig framhaldið verður eiginlega bara að koma í ljós. Ég hugsa að ég haldi áfram að taka lítil skref á mínum hraða þannig það er ekkert víst að ég sé að fara að spila í sumar. Ég ætla ekki að setja neina óþarfa pressu á sjálfan mig og ef þetta gengur ekki upp, þá bara gengur þetta ekki upp."

FH er í öðru sæti Lengjudeildarinnar sem stendur. Telma er ekki búin að fá félagaskipti yfir í FH.
Guðni Eiríks: Hefðum getað lagt rútunni en það er ekki leið FH
Athugasemdir
banner
banner
banner