Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson er á leið til Venezia í Seríu A á Ítalíu en þetta herma heimildir Fótbolta.net. Hann verður lánaður út tímabilið.
Arnór er 22 ára gamall og á mála hjá CSKA Moskvu í Rússlandi en hann gekk til liðs við félagið frá Norrköping árið 2018.
Skagamaðurinn hefur komið að sautján mörkum CSKA í rússnesku deildinni á þessum þremur árum og unnið sér inn fast sæti í íslenska landsliðshópnum.
Samkvæmt heimidum Fótbolta.net er Arnór á leið í Seríu A og virðist Venezia vera áfangastaðurinn. Hann gerir lánssamning út tímabilið.
Ítalska félagið Napoli hefur áður sýnt Arnóri áhuga eins og leikmaðurinn greindi frá í október árið 2019. Nokkur önnur félög hafa þá verið mað augun á honum og fá nú betra tækifæri til þess í vetur.
Hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Venezia á næstu dögum áður en gengið verður formlega frá skiptunum.
Fjórir Íslendingar eru á mála hjá Venezia, sem tryggði sér sæti í Seríu A á síðustu leiktíð. en Óttar Magnús Karlsson og Bjarki Steinn Bjarkason spila með aðalliðinu.
Jakob Franz Pálsson fór á láni til félagsins frá Þór í febrúar og var síðan keyptur í sumar. Valur lánaði þá Kristófer Jónsson í Venezia á dögunum en þeir koma til með að spila með unglinga- og varaliði félagsins. Hilmir Rafn Mikaelsson mun þá ganga til liðs við félagið frá Fjölni á næstu dögum.
Athugasemdir