Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 29. október 2024 15:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Plan Ísaks óbreytt - Á leið út og ætlar að vinna sig inn í lið Rosenborg
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ísak Snær Þorvaldsson var maður leiksins í úrslitaleik Íslandsmótsins þegar hann skoraði tvö fyrstu mörk Breiðabliks í 0-3 sigri á Víkingi. Ísak hjálpaði Breiðabliki að landa þriðja Íslandsmeistaratitilnum í sögunni og með frammistöðunni á sunnudag spilaði hann sig inn í lið tímabilsins hér á Fótbolti.net.

Ísak kom á láni til Breiðabliks síðasta vetur, var þá nýbúinn í aðgerð og ætlaði sér að koma sér aftur í gang með liðinu sem hann varð Íslandsmeistari með tímabilið 2022. Rosenborg var með ákvæði í lánssamningnum um að geta kallað Ísak aftur út til Noregs í sumarglugganum, og vildi gera það, en vilji Ísaks var að klára tímabilið með Breiðabliki og verða Íslandsmeistari í annað sinn. Sóknarmaðurinn fékk að ráða.

Í samtali við Fótbolta.net í ágúst sagði Ísak að planið væri að klára tímabilið með Breiðabliki vel, sem hann og gerði, og svo ætlaði hann sér út til Þrándheims að æfa og spila, vinna sig inn í liðið fyrir næsta tímabil. Íslandsmeistarinn ítrekaði þetta í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Þetta er bara eins og ég sagði í sumar, ég er á leiðinni út núna til Þrándheims til þess æfa og spila. Planið núna er að vera þar áfram," segir Ísak.

Tímabilið í Noregi er að klárast, Rosenborg situr í 5. sæti norsku úrvalsdeildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu, fjórum stigum frá Evrópusæti. Ísak fer út til þess að æfa til að byrja með og þegar nýtt undirbúningstímabil hefst getur hann spilað með liðinu á ný.

Ísak er 23 ára sóknarmaður sem er samningsbundinn Rosenborg út tímabilið 2027. Hann skoraði níu mörk í 22 leikjum í sumar.
Ísak Snær: Tvö tímabil tveir titlar, ekki slæm tölfræði."
Athugasemdir
banner
banner
banner