Dagur Orri Garðarsson samdi við Val snemma í september um að ganga í raðir félagsins á nýju ári. Hann er tvítugur framherji sem endaði með ellefu mörk og varð fjórði markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar á síðasta tímabili.
Hann var einnig orðaður við KR og Fram og Stjarnan vildi halda honum hjá sér, en hann var á láni hjá HK frá Stjörnunni á síðasta tímabili. Fótbolti.net ræddi við Dag Orra á dögunum.
Hann var einnig orðaður við KR og Fram og Stjarnan vildi halda honum hjá sér, en hann var á láni hjá HK frá Stjörnunni á síðasta tímabili. Fótbolti.net ræddi við Dag Orra á dögunum.
Ef ekki á þessu ári, þá í framtíðinni
„Ég fór í viðræður við fullt af klúbbum og ákvað að Valur væri besta tækifærið fyrir mig og sá fram á að ég fengi bestu sénsana og tæki mestu framförunum þar," segir Dagur.
Patrick Pedersen er óumdeilt besti framherji deildarinnar, en hann er að glíma við erfið meiðsli eins og er og snýr ekki til baka fyrr en í sumar.
„Auðvitað hugsaði ég út í það (að Patrick væri hjá Val), en maður kemur sér bara inn í hlutina og ég sá fram á að ég myndi eiga séns, ef ekki á þessu ári, þá í framtíðinni. Ég sé möguleika núna á að stimpla mig eins hratt inn og ég get, sýna hvað ég get í fyrstu leikjunum og vona að ég fái gott sæti (í liðinu)."
Ánægður með ákvörðunina
Hvernig voru dagarnir og vikurnar síðasta haust þegar Dagur var að ákveða sína framtíð?
„Þetta var bæði erfitt og skemmtilegt, erfiðar ákvarðanir og mikið af samræðum og símtölum. Ég er mjög ánægður með það sem ég ákvað að gera."
„Fyrstu mánuðirnir hjá Val hafa verið mjög skemmtilegir, ég er búinn að koma mér vel inn í hlutina, er að kynnast strákunum og er að reyna stimpla mig inn. Ég er búinn að vera í nára veseni, hef verið að ná því úr mér og er vonandi að komast af stað á næstu dögum og vikum."
Held að við getum gert góða hluti saman
Hjá HK spilaði Dagur undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar. Hermann tók svo við Val eftir tímabilið.
„Það er skemmtilegt að vinna með Hemma, ég þekki hann vel og hann þekkir mig vel. Ég held að við getum gert góða hluti saman í Val."
„Markmiðið hjá Val er alltaf að vinna titilinn og reyna komast eins langt og hægt er í bikarnum. Ég vil hjálpa liðinu að ná sem lengst og gera það sem ég get til þess að liðið nái titlum og geti gert það sem það vill gera."
Dagur er uppalinn hjá Stjörnunni og á leiki að baki fyrir liðið í undirbúningsleikjum. Kom til greina að vera áfram í Garðabæ?
„Já, það var einn kosturinn. Það var alveg smá erfitt að fara frá Stjörnunni, en mér leist bara svo vel á Val og allt sem þeir höfðu upp á að bjóða, þannig ég valdi þá á endanum."
Geggjuð reynsla
Dagur skoraði ellefu mörk í Lengjudeildinni í fyrra og bætti svo við einu í umspilinu. HK fór alla leið í úrslitaleik Lengjudeildarumspilsins en tapaði þar gegn Keflavík.
„Mér fannst síðasta tímabil geggjað, geggjuð reynsla og mjög ánægður að hafa fengið að fara í HK og ánægður með hvernig þeir tóku á móti mér. Endirinn var svekkjandi, hefði náttúrulega alltaf viljað vinna úrslitaleikinn og koma liðinu upp, það hefði verið miklu skemmtilegra. Ég hugsa alveg stundum út í þennan úrslitaleik, hvað maður hefði getað gert betur, en þetta fór eins og það fór."
Ákvað að fara ekki í háskólaboltann
Hvernig framherji er Dagur Orri?
„Ég var í alls konar hlutverkum hjá Hemma, maður veit náttúrulega ekki hvað hann vill að maður geri fyrr en maður mætir í leiki. Ég get mætt boltanum eða farið inn fyrir varnirnar."
Það hefur verið rætt um að Dagur hafi verið nálægt því að fara út til Bandaríkjanna í háskóla. Hann ákvað að gera það ekki.
„Það var alltaf valkostur en ég ákvað nýlega að hætta við það og vera með fullan fókus á Val. Markmiðið er að gera eins góða hluti og ég get hérna heima. Markmiðið er að stimpla mig eins vel og ég get inn í Valsliðið og vonandi fá byrjunarliðssæti eins fljótt og ég get," segir Dagur Orri.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst.
Athugasemdir

























