Al-Hilal vill fá Salah fyrir næsta sumar - Man Utd ætlar að kaupa Branthwaite - PSG undirbýr tilboð í Duran
   fim 30. júní 2022 14:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnar segir pottþétt að Kristall verði seldur núna í glugganum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristall Máni Ingason er líklega á förum frá Víkingi í glugganum. Frá þessu sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í viðtali við Fótbolta.net í dag.

Axel Freyr Harðarsson var seldur til Kórdrengja í gær. Þarf Arnar að taka inn leikmann í staðinn fyrir Axel?

„Ekkert endilega, við erum kannski meira að skoða þegar Kristall fer, ég segi ekki ef heldur þegar hann fer. Logi kom sterkur inn þegar hann fékk tækifærið á miðjunni í síðasta leik. Axel er miðjumaður og við erum kannski með leikmenn innan okkar raða sem geta spilað fleiri en eina stöðu. Sem þjálfari viltu hafa sem flesta leikmenn."

Býstu við því að Kristall fari í glugganum?

„Ég held það sé bara engin spurning, það kæmi mér verulega á óvart ef það gerðist ekki. Hann er fyrir mér búinn að vera besti maðurinn á Íslandsmótinu, ekkert flóknara en það. Ísak hefur líka staðið sig mjög vel en alhliða leikur Kristals er búinn að vera sterkari að mínu mati og ég held að það sé engin spurning að hann sé að fara út. Það kæmi mér virkilega á óvart ef hann fer ekki út."

Eru einhverjar viðræður sem eru komnar langt á veg?

„Það eru alltaf einhverjar þreifingar og þess háttar. Hann fer pottþétt út, ég held það sé engin spurning," sagði Arnar. Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.
Arnar Gunnlaugs: Frábært að KR hafi samþykkt þetta
Athugasemdir