Besta deildin fer af stað næsta laugardag og spennan er áþreifanleg. Hrikaleg öflugir leikmenn eru komnir heim úr atvinnumennsku og margir hverjir á besta aldri.
Félögin í efri hlutanum hafa blásið í herlúðra og margir spá því að keppnin um Íslandsmeistaratitilinn verði æsispennandi þetta árið.
Tíu leikmenn sem hafa spilað fyrir A-landslið Íslands eru komnir að utan fyrir tímabilið og fleiri eru á leiðinni.
Félögin í efri hlutanum hafa blásið í herlúðra og margir spá því að keppnin um Íslandsmeistaratitilinn verði æsispennandi þetta árið.
Tíu leikmenn sem hafa spilað fyrir A-landslið Íslands eru komnir að utan fyrir tímabilið og fleiri eru á leiðinni.
En hvernig raðast stærstu heimkomurnar fyrir tímabilið? Einfaldasti mælikvarðinn er einfaldlega bara fjöldi landsleikja fyrir Ísland. Að sjálfsögðu eru aðeins staðfest félagaskipti á listanum.
10. Aron Bjarnason (1 landsleikur), 28 ára, til Breiðabliks frá Sirus - Mættur aftur í græna búninginn eftir atvinnumennsku í Ungverjalandi og Svíþjóð. Einn besti leikmaðurinn á undirbúningstímabilinu og svo sannarlega líklegur til að vera ein skærasta stjarna sumarsins.
9. Valdimar Þór Ingimundarson (2 landsleikir), 24 ára, til Víkings frá Sogndal - Var geggjaður með Fylki 2020 og snýr aftur í deildina á besta aldri. Það eru miklar væntingar gerðar til hans í sóknarleiknum hjá Íslands- og bikarmeisturum Víkings.
8. Jónatan Ingi Jónsson (2 landsleikir), 25 ára, til Vals frá Sogndal - Annar leikmaður sem er að koma heim á besta aldri frá Sogndal. Hæfileikaríkur leikmaður sem var á sínum tíma í akademíu AZ Alkmaar og stækkar vopnabúr Vals sóknarlega.
7. Axel Óskar Andrésson (2 landsleikir), 26 ára, til KR frá Örebro - Nautsterkur varnarmaður sem kemur með ógn í föstum leikatriðum. Á að vera kletturinn sem vantaði í vörnina hjá KR.
6. Alex Þór Hauksson (4 landsleikir), 24 ára, frá Öster í KR - Það var erfitt fyrir marga Stjörnumenn að sjá þennan útsjónarsama miðjumann ganga í raðir KR. Alex er mikill leiðtogi sem verður í lykilhlutverki í Vesturbænum.
5. Böðvar Böðvarsson (5 landsleikir), 28 ára, í FH frá Trelleborg - Mesta heimkoman á listanum að því leyti að Böddi löpp er mættur í uppeldisfélagið, þar sem hjartað slær, eftir að hafa leikið í Skandinavíu og Póllandi. Kemur með reynslu og gæði í vörn FH.
4. Aron Sigurðarson (8 landsleikir/2 mörk), 30 ára, í KR frá Horsens - Eftir að hafa spila í Skandinavíu og Belgíu er Aron Sig kominn heim til Íslands. Hefði hæglega getað verið áfram úti og spáð er að þessi snjalli sóknarmaður verði meðal allra bestu leikmnanna Bestu deildarinnar í sumar.
3. Jón Guðni Fjóluson (18 landsleikir/1 mark), 34 ára, til Víkings frá Hammarby - Algjör hágæða varnarmaður sem á þrettán ára atvinnumannaferil að baki. Stærsta spurningamerkið er bara hvort hann verði heill, því erfið meiðsli hafa plagað hann undanfarin ár.
2. Viðar Örn Kjartansson (34 landsleikir/4 mörk), 34 ára, í KA frá CSKA 1948 - Fæddur markaskorari eins og ferilskráin sýnir glögglega. Hefur víða komið við á ferlinum en þarf að endurræsa hlutina eftir erfiða tíma í Búlgaríu. Þegar hann kemst í stand ætti hann að verða markavél fyrir norðan.
1. Gylfi Þór Sigurðsson (80 landsleikir/27 mörk), 34 ára, til Vals frá Lyngby - Stærsta heimkoma í sögu íslenska fótboltans. Besti landsliðsmaður Íslands frá upphafi og langstærsta stjarna Bestu deildarinnar. Náði ekki flugi hjá Lyngby en ef hann helst heill á Hlíðarenda verður hann vafalaust besti leikmaður deildarinnar. Frekari kynning á Gylfa er óþörf.
Athugasemdir