Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er miðjumaður sem hefur undanfarin tvö tímabil leikið með Utah Royals í bandarísku NWLS-deildinni.
Gunnhildur er uppalin hjá Stjörnunni en árið 2013 prófaði hún atvinnumennskuna í fyrsta skipti og hélt til Arna-Björnar í Noregi. Hún lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2012 og hefur alls leikið 68 slíka.
Gunnhildur er uppalin hjá Stjörnunni en árið 2013 prófaði hún atvinnumennskuna í fyrsta skipti og hélt til Arna-Björnar í Noregi. Hún lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2012 og hefur alls leikið 68 slíka.
Fótbolti.net hafði samband við Gunnhildi á dögunum og spurði hana út í tímabilið með Utah Royals. Fyrsta spurninginin snerist að styrkleika NWLS deildarinnar og hvernig hún væri í samanburði við þá norsku og áströlsku, sem Gunnhildur hefur einnig leikið í.
„Bandaríska deildin er klárlega sterkasta deildin sem eg hef spilað í. Þar ertu að mæta sumum af bestu leikmönnum í heimi í hverri viku. Það er lítill munur á efsta liðinu og neðsta liðinu, þannig það eru engir gefins leikir, allir leikir eru því einhvers konar úrslitaleikir," sagði Gunnhildur við Fótbolta.net
„Deildin er mjög krefjandi líkamlega. Þú færð nánast engan tíma á boltann þannig að þú þarft alltaf að vera vakandi og á tánum. Það er mikil samkeppni, ef þú átt slæman leik þá geturu misst sætið þitt í liðinu."
„Ástralska deildin var erfiðari en ég bjóst við og mér fannst hún mun sterkari en norska deildin. Margir leikmenn koma þangað úr bandarísku deildinni þannig gæðin eru góð. Þó að liðin eru ekki eins jöfn og í NWSL, þá eru allir leikir erfiðir. Fyrir mér var norska deildin of ójöfn, þú gast átt slæman dag en samt unnið."
Mikil fagmennska í kringum allt hjá félaginu
Utah Royals er tiltölulega nýtt af nálinni. Liðið var stofnað undir lok ársins 2017 og lék í fyrsta sinn í NWSL árið 2018. Hvernig eru aðstæðurnar hjá félaginu?
„Hjá Royals eru aðstæðurnar allt aðrar en ég er vön. Þetta er rosa flott félag og allt fagmannlegt í kringum félagið. Það er komið mjög langt kvenna megin."
„Félagið tekur við af öðru liði sem hættir eftir tímabilið 2016. Það vantar ekki neitt hjá félaginu, allt er til taks. Eigandinn okkar er frábær og er tilbúinn að gera allt fyrir okkur og hefur byggt upp rosaleg flott og fagmannlegt lið á þessum stuttum tíma."
Hvað mæta margir á leiki hjá félaginu?
„Við fáum að meðaltali 10 þúsund manns á leik sem er alveg frábært."
Skoraði fyrsta markið í sögu félagsins
Gunnhildur skoraði fyrsta mark Royals í NWSL deildinni. Gunnhildur var spurð út í fyrra tímabilið og hvernig það var frábrugðið tímabilinu í ár.
„Fyrra tímabilið var svolitið öðruvisi en tímabilið í ár, við vorum glænýtt lið með nýjan þjálfara og því fórum við inn í tímabilið með takmarkaðar væntingar. Við ætluðum að bæta okkur sem lið og þétta hópinn. Hópurinn var einungis búinn að vera saman í 3 vikur fyrir fyrsta leik í deild."
„Við vorum frábærar varnarlega en náðum ekki að skora nóg af mörkum. Við rétt misstum af úrslitakeppninni sem var alltaf markmiðið."
„Ég skoraði fyrsta markið í sögu félagsins. Fjölskylda mín var á þeim leik og það kryddaði þetta aðeins."
„Ég hefði samt frekar tekið sigur og ekki fengið markið skráð á mig. Við endum því miður á að gera jafntefli í leiknum. Einn af liðsfélögum mínum fær skot beint í andlitið en dómarinn dæmir hendi-víti. Það atvik lýsir svolítið gengi liðsins í fyrra."
Án margra lykilleikmanna vegna HM í sumar
Royals endaði í 6. sæti deildarinnar í ár og var Gunnhildur spurð út í hennar sýn á þann árangur.
„Við endum í sjötta sæti, sem er langt fyrir neðan það sem við stefndum á. Við ætluðum okkur í úrslitakeppnina (efstu fjögur liðin) og spiluðum of oft undir væntingum."
„Við misstum margar lykilleikmenn á HM og því spiluðum við t.d. 10 leiki án bandarísku landsliðsmannanna. Uppbyggingin á liðinu er enn í fullum gangi og hlutirnir verða bara betri úr þessu."
„Sum liðin misstu heilu og hálfu byrjunarliðin vegna HM sem litaði deildina. Við missum sjö úr byrjunarliðinu og svo voru einhver meiðsli sem hjálpuðu ekki til."
Í hvaða stöðu var Gunnhildur að spila?
„Ég spilaði mest á miðjunni en þurfti svo að leysa hægri bakvörðinn í síðustu 3-4 leikjunum."
Hvernig fannst Gunnhildi tímabilið ganga hjá sér sjálfri?
„Það var mikið álag á tímabili með landsliðinu og Utah þannig ég var ekki að spila eins vel og ég vildi en svo í lokin, þegar ég náði orkunni til baka, fannst mér ég spila vel og er ánægð með frammistöðuna á þeim kafla."
„Ég var að glíma við meiðsli allt tímabilið sem ég náði loksins að eiga við eftir tímabilið og er orðin góð núna."
Lánuð til Ástralíu milli tímabila
Gunnhildur lék með liði Adelaide United í Ástralíu á milli leiktíða í bandarísku deildinni. Gunnhildu var spurð út Ástraliu-ævintýrið.
„Tímabilið þar passar akkúrat með tímabilinu sem spilað er í Bandaríkjunum - deildin er viljandi sett upp þannig."
„Ég mæli klárlega með því að leikmenn fari til Ástralíu ef þeir fá tækifæri, þú færð mjög góða leiki þar og reynslu sem ég tel að myndi hjálpa flestum leikmönnum. Ég myndi hiklaust mæla með þessu."
„Ég var líka svo heppin að fá að deila þessari reynslu með Fanndísi (Friðriksdóttur)."
Býst við að framlengja við Royals
Að lokum, aftur að Utah Royals, verður Gunnhildur áfram hjá félaginu?
„Já ég býst við því að ég muni skrifa undir nýjan samning hjá Royals, ég er mjög ánægð hjá félaginu," sagði Gunnhildur að lokum.
Athugasemdir