,,Ég vil spila fótbolta fyrir utan Afríku, ég er andlega og líkamlega heill framherji sem skorar og býr til mörk. Ég tek ekki eiturlyf og mun fylgja reglum félagsins í einu og öllu. Ég mun standa mig sem best fyrir félagið og ykkar yndislegu stuðningsmenn. Ég er tilbúinn að ferðast um leið og þið bjóðið mér að koma. Heyri frá ykkur fljótlega.”
Textinn hér að ofan er úr tölvupósti sem leikmaður frá Kenía hefur sent á nánast öll félög í efstu og fyrstu deild á Íslandi. Leikmaðurinn sem um ræðir vill koma til Íslands og spila fótbolta og losna um leið úr fátækt í heimalandi sínu.
Svona tölvupóstar eru daglegt brauð hjá forráðamönnum íslenskra félaga. Leikmenn víðs vegar að úr heiminum senda tölvupóst í von um að fá tilboð frá Íslandi. Margir af leikmönnunum vita eflaust ekkert um Ísland en þrátt fyrir það vilja þeir ólmir koma hingað til lands til að komast úr fátækt í heimalandi sínu.
Í könnun Fótbolta.net hjá nokkrum félögum kom í ljós að framkvæmdastjórar félaga á Íslandi fá nokkra tölvupósta á viku frá leikmönnum víðs vegar að úr heiminum en flestir póstarnir virðast þó koma frá Brasilíu og Afríku.
Leikmennirnir sem senda póstana finna upplýsingar um íslensk félög á Google og senda þaðan tölvupóst á framkvæmdastjóra og formenn félaganna. Í póstinum segja leikmennirnir yfirleitt frá ferli sínum og hjá þeim sem eru lengra komnir fylgir með linkur á myndband á YouTube. Leikmennirnir sýna þar mörk og önnur tilþrif úr leikjum hjá sjálfum sér. Eins og gefur að skilja eru engar sannanir fyrir því að leikmaðurinn á myndbandinu sé sá sami og sendir tölvupóstinn, það gæti allt eins verið frændi hans. Eins er lítið hægt að taka mark á myndböndum á YouTube, þar er jú einungis brot af því besta hjá leikmönnum en ekki mistök hans í leikjum. Það geta allir leikmenn litið ágætlega út á YouTube ef það er til nægilega mikið af efni úr leikjum með honum.
Forráðamenn íslenskra félaga vita af þessu og því eru töluvpóstarnir frá þessum leikmönnum yfirleitt sendir beint í ruslafötuna. Þó eru til einstaka undantekningar og Grindvíkingar sömdu meðal annars við franska leikmanninn Yacine Si Salem á dögunum en hann hafði samband við félagið að fyrra bragði, reyndar í gegnum íslenskan tengilið.
,,Hann borgaði sjálfur fyrir sig farið og vildi sýna sig og sanna og stóð sig vel þannig að við sömdum við hann en bakgrunnur hans er nokkuð sérstakur. Það kemur svo í ljós hvort það hafi verið rétt ákvörðun, kannski slær hann í gegn eða verður algjört flopp," sagði Þorsteinn Gunnarsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur við Fótbolta.net aðspurður út í tölvupóstsendingar frá leikmönnum úti í heimi.
,,Það skemmtilega við fótboltann er að það er stundum svo stutt þarna á milli. Ef leikmenn vilja koma hingað og borga sjálfir fyrir farið eru þeir velkomnir, það sýnir alla vega að þeir hafa áhuga á því að koma og sanna sig. Að öðrum kosti líítum við ekki við þessum YouTube leikmönnum frekar en önnur lið."
Þrátt fyrir að Grindvíkingar hafi krækt í leikmann á þennan hátt þá verður að teljast ólíklegt að margir leikmenn komi til Íslands á næstunni með því að senda sjálfir tölvupósta á félög. Þó að einhverjir leikmenn sem senda sjálfir tölvupósta séu eflaust ágætir knattspyrnumenn þá er mikil áhætta fólgin í því að fá slíka leikmenn til landsins því að þeir gætu allt eins verið slakari en Ali Dia sem náði með lygum að fá leik með Southampton árið 1996.
Íslensku félögin munu því áfram nota sín eigin sambönd til að fá erlenda leikmenn en á meðan fá framkvæmdastjórar félaganna áfram tölvupósta frá bjartsýnum knattspyrnumönnum sem eiga þann draum að fá að koma til Íslands....þó sumir þeirra hafi aldrei séð snjó áður.