Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 28. apríl 2011 13:15
Magnús Már Einarsson
Lee Sharpe: Grindavík aðeins of lítill staður fyrir mig
Sharpe í búningi Grindavíkur árið 2003.
Sharpe í búningi Grindavíkur árið 2003.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sharpe fagnar marki með Manchester United.
Sharpe fagnar marki með Manchester United.
Mynd: Getty Images
Lee Sharpe, fyrrum leikmaður Manchester United, lék fjóra leiki með Grindvíkingum sumarið 2003. Sharpe var án félags þegar Grindvíkingar höfðu samband við hann í desember 2002. Eftir viðræður við félagið ákvað Sharpe síðan að semja við Grindvíkinga eins og rifjað er upp í Tímavélinni hér á Fótbolta.net í dag.

,,Ég hitti íslenskan mann í Manchester og hann spurði mig hvort ég vildi koma til Íslands. Ég hélt að hann væri að biðja mig um að halda ræðu á hátíðarkvöldverði en hann vildi fá mig til að spila og ég endaði á því að fara,“ sagði Sharpe í einkaviðtali við Fótbolta.net.

,,Þetta voru engar alvöru samningaviðræður. Þeir buðu mér bara samning og spurðu hvort ég vildi prófa eitthvað nýtt."

Sharpe stoppaði stutt við hjá Grindavík en hann fór frá félaginu um miðjan júní.

,,Hlutirnir voru ekki að ganga vel hjá liðinu og ég ákvað að þetta væri ekki fyrir mig þannig og ákvað að fara heim," segir Sharpe um endalok sín hjá félaginu en hann sér alls eftir því að hafa komið til Íslands að spila með Grindavík.

,,Ég sé alls ekki eftir því. Það var gaman að vera á Íslandi, ég elska landið. Fólk var mjög vingjarnlegt og ég átti frábæran tíma þarna og get ekki beðið eftir að koma aftur í heimsókn."

,,Ég elska Ísland, mér finnst það var fallegur og frábær staður. Það var svolítið kalt og þetta er lítill staður allir virðast þekkja alla og maður getur ekki verið mikið út af fyrir sig á Íslandi. Þetta var líklega aðeins of lítill staður fyrir mig þar sem ég ólst upp í stórborgum en þetta er samt frábær staður."

,,Ég tala ennþá við fólk þar eins og Jón Gauta (Dagbjartsson) og ég stefni á að koma þangað í sumarfrí ef ég get. Ég hef ekki komið í heimsókn síðan ég fór frá Grindavík og hlakka til að kíkja í heimsókn og hitta nokkra vini mína."


Á dögunum var Fótbolti.net með aprílgabb um að Sharpe væri á leið aftur í Grindavík en þar var hann meðal annars í myndbandsviðtali sem Grindvíkingar tóku við hann í Manchester í vetur.

,,Aprílgabbið var gott og mér fannst það fyndið. Ég held að margir hafi fallið fyrir því," sagði Sharpe um aprílgabbið.

Sharpe lék sjálfur nokkra leiki með Garforth árið 2004 áður en skórnir fóru endanlega á hilluna. Í dag einbeitir hann sér síðan meira að golfi en fótbolta.

,,Ég spila ekki mikið fótbolta núna. Ég vil frekar fara út á golfvöll, það er skemmtilegra í dag og auðveldara en fótboltinn. Ég er að vinna í því að ná forgjöfinni niður, ég er með 6 í forgjöf í augnablikinu,“ sagði hinn geðþekki Sharpe að lokum.
banner
banner
banner