Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 26. ágúst 2011 11:25
Mist Rúnarsdóttir
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Enn af áhorfendum
Mist Rúnarsdóttir
Mist Rúnarsdóttir
Frá frábærum úrslitaleik 1. deildar í fyrra
Frá frábærum úrslitaleik 1. deildar í fyrra
Mynd: Hafliði Breiðfjörð - Fótbolti.net
Selfyssingar voru ekki langt frá því að vinna sig upp í fyrra. Í ár þurfa stuðningsmenn liðsins að velja á milli þess að mæta og styðja strákana og stelpurnar.
Selfyssingar voru ekki langt frá því að vinna sig upp í fyrra. Í ár þurfa stuðningsmenn liðsins að velja á milli þess að mæta og styðja strákana og stelpurnar.
Mynd: Hafliði Breiðfjörð - Fótbolti.net
Frá leik Keflavíkur og FH í sumar
Frá leik Keflavíkur og FH í sumar
Mynd: Aðsend
Haukar unnu 1. deildina 2009
Haukar unnu 1. deildina 2009
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kollegi minn hann Hafliði Breiðfjörð skrifaði pistil hér á síðuna fyrr í vikunni sem ber yfirskriftina „Af hverju ekki að fá raunverulega áhorfendur á völlinn“. Þar veltir hann því fyrir sér af hverju miðaverð í Pepsi-deild karla sé ekki lækkað til þess að fá fleiri áhorfendur á völlinn. Mér þykir þetta góður punktur hjá Hafliða og er handviss um þéttar verði setið í stúkunni ef dregið verður úr miðaverði.

Það eru hinsvegar einnig fleiri atriði sem ég tel draga úr aðsókn á völlinn og sem dæmi má nefna tímasetningar leikja. Nú ætla ég að taka dæmi úr kvennaboltanum þar sem mikið er í gangi þessa dagana.

Lokasprettur Pepsi-deildarinnar er í fullum gangi. Þó svo að Stjarnan sé í álitlegri stöðu á toppi deildarinnar er mótinu engan veginn lokið og botnbaráttan er ennþá nokkuð opin. Úrslitakeppni 1.deildar kvenna er svo að hefjast og þar verður barist til síðasta blóðdropa. Undanfarin ár hefur verið virkilega gaman að fylgjast með þessari úrslitakeppni. Þarna gefur að líta liðin tvö sem munu bætast í hópinn í Pepsi-deildinni að ári auk þriðja og fjórða bestu liða 1. deildar sem eiga skemmtilega leikmenn innanborðs sem gaman er að fylgast með.

Nú er það hinsvegar svo að tímasetningar á leikjum úrslitakeppninnar verða til þess að áhorfendafjöldinn verður ekki eins hár og hann hefði getað orðið og fjölmiðlaumfjöllun verður heldur ekki eins mikil og hefði getað verið.

Fyrri leikir úrslitakeppninnar fara fram á laugardag. Upphaflega voru þeir báðir settir á kl.14:00 en síðar var leiktíma annars leiksins breytt þar sem KSÍ hafði sett tvo leiki á sama völl á sama tíma. Þau mistök eru eiginlega ekki skrítin miðað við hversu margir leikir fara fram á laugardag. Klukkan 14:00 mætast Þróttur og Fylkir í Pepsi-deild kvenna, næstum heil umferð fer fram í 1. og 2. deild karla auk þess sem að úrslitakeppni 3. deildar karla hefst. Félögin sem leika í úrslitakeppni 1. deildar í ár eru FH, Haukar, Keflavík og Selfoss. Leikur Hauka og FH var færður til. kl.12:00 vegna leikjaáreksturs á Ásvöllum en leikur Keflavíkur og Selfoss hefst kl.14:00 í Keflavík. Þess má geta að karlalið Selfoss á leik í 1. deild karla á sama tíma. Sá leikur er reyndar á Ólafsvík en það breytir því ekki að þarna er ekki verið að gefa stuðningsmönnum Selfoss tækifæri á að styðja flaggskip félagsins, báða meistaraflokkana, sem að eru í bullandi baráttu um að vinna sig upp um deild. Það er spurning af hverju hrúga þurfi öllum þessum leikjum á laugardag en á sunnudeginum eru aðeins tveir meistaraflokksleikir á dagskrá hér á landi, báðir í Pepsi-deild karla.

Þá komum við að síðari viðureignum úrslitakeppninnar þar sem spennan verður í hámarki. Seinni leikirnir eru settir á þriðjudaginn 30. ágúst. Á sama tíma fer fram heil umferð í Pepsi-deild kvenna og leikir í úrslitakeppni 3. deildar karla eru spilaðir. Ég leyfi mér að fullyrða að margir af þeim sem hafa áhuga á að fylgjast með úrslitakeppni 1. deildar eru aðilar sem starfa í kringum eða fylgjast með liðunum í Pepsi-deild kvenna og þarna er því verið að draga úr áhorfendum á öllum stöðum. Of margt um að vera á sama tíma í stað þess að dreifa þessu betur. Á miðvikudeginum á eftir er einn leikur í gangi, í úrslitum 3. deildar karla.

Það kemur til með að skýrast þriðjudaginn 30. ágúst hvaða lið leika í Pepsi-deild kvenna að ári en þau lið munu leika hreinan úrslitaleik um sigur í 1. deild. Sá leikur fer fram laugardaginn 3. september kl.14:00. Hvað ætli séu margir leikir í gangi á sama tíma þá? Jú, það er heil umferð í Pepsi-deild kvenna og það eru tveir leikir í 1. deild karla, þar á meðal annar leikur hjá Selfyssingum sem verða því aftur að velja á milli meistaraflokkanna sinna ef að stúlkurnar komast í úrslitaleikinn. Eins er umferð í 2. deild karla og leikir í úrslitakeppni 3. deildar karla. Á sunnudeginum á eftir eru hinsvegar engir mótsleikir í meistaraflokkum og því óskiljanlegt af hverju ekki var hægt að dreifa þessum leikjum betur.

Knattspyrnusambandið verður að mínu mati að skipuleggja leikjadagskránna betur og með það í huga að reyna að hvetja fólk til að mæta á völlinn. Á meðan allir leikir eru spilaðir á sama tíma þá fjölgar áhorfendum ekki. Áhugi á kvennaknattspyrnu eykst heldur ekki á meðan það er verið að stilla leikjum upp í samkeppni við meistaraflokka karla sem eru orðnir rótgrónir hjá félögunum og hafa hefðina með sér.

Þetta mál er mér ekki aðeins hugleikið af því að ég hefði svo sannarlega viljað geta fylgst með mínum liðum í Pepsi-deild kvenna og 1. deild karla, sem og þeim spennandi liðum sem eru að berjast í úrslitakeppni 1. deildar kvenna. Þessi leikjauppröðun snýr nefnilega líka að fjölmiðlaumfjöllun. Nú starfa ég hjá Fótbolta.net og við erum eini fjölmiðillinn sem hefur fjallað um allar deildir íslenska boltans í allt sumar. Rétt eins og aðrir áhorfendur þá getum við starfsmenn síðunnar því miður ekki verið á fleiri en einum stað í einu og það verður því gríðarlega erfitt fyrir okkur að sinna umfjöllun um alla þessa stóru leiki sem bera upp á sömu dögum. Viljinn er vissulega fyrir hendi af okkar hálfu en það að manna fréttaritara og ljósmyndara á sextán, tíu og fimmtán stórleikjum sama daginn er hægara sagt en gert.

Knattspyrnusamband Íslands hefur gert margt gott í því að breiða út fagnaðarerindi knattspyrnunnar. Áhugi á kvennaknattspyrnu hefur til að mynda vaxið mikið og á sama tíma hafa gæði leiksins aukist. Það er hinsvegar margt sem betur má fara og við megum ekki sofna á verðinum. Þó að umfjöllunarefni þessa pistils sé ekki stærsta eða mikilvægasta mál knattspyrnunnar á Íslandi þá skiptir það samt máli. Persónulega finnst mér að leikjauppröðunin virki á móti því útbreiðslustarfi sem hefur verið unnið og ég get engan veginn séð að henni fylgi nokkur hvatning til fólks að mæta vel á völlinn og fylgjast með íslenska boltanum.
banner
banner
banner