Óhætt er að segja að gósentíð sé hjá íslenskum fótboltaáhugamönnum hvað varðar leigubílasögur. Ljóst er að Ólafur Jóhannesson mun láta af störfum sem landsliðsþjálfari eftir undankeppnina og eru ýmsar getgátur og sögusagnir á lofti um hver muni taka við keflinu.
Sú skoðun að rétti tímapunkturinn sé til að ráða erlendan þjálfara hlýtur mikinn meðbyr. Twitter er góður grundvöllur fyrir slúðursögur og þar hefur nafn Roy Keane oft komið við sögu þegar rætt er um draumalandsliðsþjálfarann. Sú saga að Keane taki líklega við hefur síðan stækkað.
Hún hefur stækkað það mikið að Morgunblaðið, sem hefur síður en svo sérhæft sig í leigubílasögum, greindi frá því í gær á vefsíðu sinni að sterkur orðrómur sé uppi um að Keane verði í stúkunni á morgun þegar Ólafur stýrir sínum síðasta leik með landsliðið á heimavelli. Ég er til í að þessi orðrómur sé sannur.
Hin ótrúlegustu nöfn hafa komið upp á Twitter þegar rætt er um hugmyndir að næsta landsliðsþjálfara en Eiður Smári Guðjohnsen var meðal þeirra sem nefndir voru til sögunnar, þá með reynda aðstoðarmenn með sér. Eiður sagði nú í viðtali 2005 að hann væri til í að taka þetta starf að sér einn daginn!
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði í viðtali á Stöð 2 Sport að hann væri meðvitaður um að stór hluti aðildarfélaga væri á þeirri skoðun að fá erlendan þjálfara. KSÍ er í raun félögin og því ætla ég að gera ráð fyrir því að næsti þjálfari verður erlendur miðað við þessi orð hans og þá staðreynd að enginn íslenskur þjálfari nær að vera augljós kostur í starfið.
Af íslenskum þjálfurum fær Guðjón Þórðarson mikið fylgi enda sérlega vinsæll meðal stuðningsmanna þegar hann þjálfaði landsliðið. Erfitt er að sjá KSÍ ráða Guðjón miðað við það sem á undan er gengið, Teitur Þórðarson er á lausu og áhugasamur en Eyjólfur Sverrisson og Rúnar Kristinsson eru ekki til í slaginn segir sagan. Þá hafa þeir þjálfarar í Pepsi-deildinni sem nefndir hafa verið sem næsti landsliðsþjálfari margir verið í basli í sumar.
Stuart Baxter, fyrrum þjálfari Finnlands, var fyrsta erlenda nafnið sem ég heyrði orðað við starfið. Eftir að hafa lesið mig betur til um hann og hans afrek fór allur spenningur og ég var ánægður þegar ég heyrði að hann væri ekki í myndinni.
Reynsluboltarnir Steve Coppell, fyrrum þjálfari Reading, og Lars Lagerbäck, fyrrum þjálfari Svía, hafa verið nefndi nefndir. Nafn hins síðarnefnda öllu háværara í umræðunni. Þá er Lars Olsen, fyrrum landsliðsmaður Dana, á lausu og einhverjir nefnt hann til sögunnar bara svo einhverjir séu nefndir.
Ekki er ljóst hvenær KSÍ mun opinbera nýjan þjálfara. Leigubílasögustraumurinn gæti verið stöðvaður í vikunni en gæti líka lifað fram í nóvember.
Ég tek allavega undir það að nú er kominn tími á útlending. Ef ég væri að reka veðbanka á Íslandi myndi ég henda lægsta stuðlinum á Lagerbäck og Teit. Sem fjölmiðlamaður verður maður samt að vona að Keane taki við þessu, þá verður enn skemmtilegra í vinnunni.