Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
   fim 10. nóvember 2011 09:00
Daníel Geir Moritz
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fótboltamenn sem gætu gert annað
Daníel Geir Moritz
Daníel Geir Moritz
Bobsleðamaðurinn Petr Cech.
Bobsleðamaðurinn Petr Cech.
Mynd: Getty Images
George Elokobi væri flottur í bekkpressu.
George Elokobi væri flottur í bekkpressu.
Mynd: Getty Images
Peter Crouch hefði getað orðið eðal körfuboltamaður.
Peter Crouch hefði getað orðið eðal körfuboltamaður.
Mynd: Getty Images
Fótbolti er litrík íþrótt. Ekki vegna fótboltans sjálfs, sem er nú frekar einfaldur, heldur vegna leikmanna sem hann spila. Lítið væri gaman að þessu ef allir væru jafn góðir og karakterlausir og Lionel Messi.

Ég hef hér tekið saman lið skipað leikmönnum sem gætu gert annað en að spila fótbolta.

Mark: Petr Cech, bobsleði
Fyrir nokkrum árum lenti þessi stórbrotni markmaður í meiðslum, og segja sumir að hann hafi ekki verið samur síðan. Hjálmurinn svarti er orðinn eitt einkennismerkja Tékkans. Ég er af Cool Runnings kynslóðinni og sé hann Cech alveg fyrir mér sem aftasta mann á einhverjum bobsleðanum. Ja man. Hann yrði eflaust þrælgóður bremsumaður, enda yfirvegaður leikmaður.

Hægri bakvörður: Branislav Ivanovic, hermaður
Holning þessa leikmanns er alveg einstök. Þegar hann stendur á miðjunni fyrir leiki finnst mér eins og hríðskotabyssu vanti og hjálm. Mikil reisn og töffaraskapur.

Miðvörður: Cristopher Samba, fjölbragðaglíma
Ófáir markmenn og varnarmenn hafa verið keyrðir niður af þessum nautsterka leikmanni. Olnbogar eru ekki alltaf hafðir með síðum þegar hann stekkur upp og hefur hann haldið leikmönnum svo þeir komast ekki fet. Þetta er mögulega síðasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar sem ég myndi vilja mæta í dimmu húsasundi.

Miðvörður: Alex, amerískur fótbolti
Hann getur tekið þá marga í öxl í öxl, eins og sagt er. Einnig er hann með mikinn leikskilning af varnarmanni að vera, sem myndi nýtast ákaflega vel í amerískum fótbolta. Langar spyrnur hans gætu þó verið hans helsta vopn, en Alex ætti ekki í vandræðum með að þruma rúbbýboltanum í mark frá eigin vallarhelmingi.

Vinstri bakvörður: George Elokobi (fyrirliði), bekkpressa
Elokobi er eins langt frá því að líta út eins og fótboltamaður og mögulegt er. Upphandleggirnir á þessu kvikindi eru það rosalegir að hann getur eflaust ekki klappað og þarf að hlusta á símann með vinstra eyra ef hann heldur á honum í hægri hendi. Á dögunum var haldið golfmót hjá Wolves og segir sagan að hann hafi skrópað til að geta tekið á í bekknum. Elokobi er geysilega vinsæll og verðugur fyrirliði þessa liðs.

Miðjumaður: Michael Carrick, skák
Þessi leikstjórnandi er það lengi að hugsa að boltinn er iðulega tekinn af honum áður en hann nær að senda. Hins vegar þegar hann sendir boltann eru sendingarnar hans góðar og skapa gjarnan hættu. Carrick ætti mikið frekar heima í skák. Þá getur hann metið næsta leik gaumgæfilega án þess að verða tæklaður. Það verður hins vegar að vera klukkulaus skák.

Miðjumaður: Joey Barton, MMA
Vandræðagemsinn Joey hefur sparkað í menn, kýlt menn, drepið í sígarettu í smetti manna, rifið menn niður, rifið menn upp, og svo mætti lengi telja. Hann yrði eflaust mjög góður í MMA, enda geysilega fjölhæfur þegar kemur að slagsmálum.

Miðjumaður: Rory Delap, spjótkast
Innköst þessa manns eru bara rugl. Forvitnilegt væri að sjá hann með spjótið. Gæti hins vegar verið svekkjandi fyrir þá sem eru búnir að æfa þetta alla ævi.

Hægri kantur: Theo Walcott, spretthlaup
Ef þessi maður gæti hugsað jafn hratt og hann hleypur, gætu aðrir gleymt þessu. En það er hins vegar ekki þannig. Theo er einhver hraðasti leikmaður í sögu enska boltans og byrjaði hann ekki í fótbolta fyrr en seint um síðir. Því miður fyrir hann þá nýtast sprettirnir ekki alltaf sem skildi, en hann getur sprettað drengurinn.

Framherji: Peter Crouch, körfubolti
Líkamsbygging Crouch er kjörin í körfubolta. Minnir hann óneitanlega á Yao Ming, og ef hann væri dökkur væri hann ekki ósvipaður Manute Bol heitnum. Spóaleggir og langur faðmur. Myndi ná þeim ófáum undir körfunni.

Framherji: Luis Suarez, dýfingar
Það er klárt mál að Suarez yrði ekki í vandræðum með ólympíulágmarkið í dýfingum. Hæfni hans í þessari iðju er algjör og hefur ósjaldan komið sér vel.

Sem betur fer eru þessir menn í fótboltanum. Þeir eiga það allir sameiginlegt að þeir gera boltann skemmtilegri og gefa af sér ófá þrætueplin.
banner
banner
banner
banner