Fyrst þú ert að lesa pistil inná Fótbolta.net mitt í jólahátíðinni, hefur þú greinilega MJÖG mikinn áhuga á sportinu, og ég skil þig, þetta er frábær síða. Það er gaman að skanna slúður leikmannamarkaðarins, sjá ummæli þjálfara og íslensk myndbandsviðtöl við leikmenn, þó ekkert toppi að sjá (staðfest)-frétt um liðsstyrk.
En af því að það eru að koma jól, og ég trúi því svo innilega að jólin séu okkur gefin til að staldra við, gleyma ekki okkar minnsta bróður, gefa og fyrirgefa, sakna þeirra sem við höfum misst og vera þakklát fyrir það sem við höfum. Vil ég minna á, að eins mögnuð og knattspyrnan er, þá skiptir hún nánast engu máli í stóra samhengi hlutanna.
Horfðu tíu ár aftur í tímann, hvaða merkingu hefur leikmannahópur liðsins þíns leiktíðina 2001-2002 fyrir líf þitt í dag? Skiptir það miklu um samskipti við ástvini hvaða varnarmaður var oftast valinn í lið vikunnar þetta árið? Hver átti flestar stoðsendingar eða skoraði þrennu?
Eftir tíu ár skipta fótboltafréttir morgundagins, jafnlitlu máli fyrir hamingju þína þá. Gary Speed og hans harmþrungnu endalok sýna jafnframt hvað velgengni á knattspyrnuvellinum skiptir í raun litlu máli fyrir hamingju okkar. Þar er það hins vegar kjarnin í boðskap jólanna sem skiptir megin máli.
Ég rakst á sænskt jólaljóð um daginn og þegar ég las það komu orð Alan Shearer í huga mér, þegar hann spurði í djúpri sorg sinni ,,Gary af hverju hringdir þú ekki eitt símtal til að segja mér hvernig þér leið?“
Ljóðið opnaði augu mín fyrir því að stundum þurfum við á því að halda að það sé hringt í okkur af fyrra bragði, en þess ekki beðið að við höfum kjark í að hringja, jafnvel á tímum svartnættis þar sem frumkvæði af því að taka upp tólið og hringja í vin er það síðasta sem við höfum.
Um leið og ég óska þér, Guðs blessunnar, gleðilegra jóla og farsæls nýs knattspyrnuárs langar mig að deila þessu ljóði með þér:
Englar jólanna
Ég verð að segja ykkur frá englum jólanna,
þessum sem hvorki hafa vængi né geta svífið um loftin.
Þeir eru margir.
Ég veit um einn sem mokaði snjóinn á tröppunum hjá okkur eitt vetrarkvöldið.
Og aðra sem kom óvænt með svo fallegt og einlægt bréf.
Hún hafði glaðvært blik í augum sér.
Einu sinni talaði ég við engil í símann
og hugarástandið breyttist:
úr dimmu í dagsljós.
Englar eru sendiboðar kærleikans.
Og maður verður að trúa að þeir séu til.
Sérstaklega á jólunum
Kannski ert þú sjálf(ur) engill
Eða gætir alla vega orðið það.
Guðni Már Harðarson prestur í Lindakirkju