Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fim 05. janúar 2012 07:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Varúð! Lið með sjálfseyðingarhvöt
Bjarni Þór Pétursson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Luis Suarez spilar ekki á næstunni.
Luis Suarez spilar ekki á næstunni.
Mynd: Getty Images
Damien Comolli.
Damien Comolli.
Mynd: Getty Images
Bolirnir umtöluðu.
Bolirnir umtöluðu.
Mynd: Getty Images
Patrice Evra, leikmaður Manchester United.
Patrice Evra, leikmaður Manchester United.
Mynd: Getty Images
„Lose money for my firm and I will be understanding. Lose a shred of reputation for the firm and I will be ruthless."

(Ofangreind tilvitnun í Warren Buffett er til í allskyns útgáfum og er oft ein af fyrstu setningunum sem nemendur í almannatengslum, viðskipta- og markaðsfræði læra í sínu fagi víðsvegar um heim).

Gefum okkur í þessum pistli að Luis Suarez sé saklaus, hvar liggja þá mistök Liverpool? Af 115 blaðsíðna skýrslunni að dæma þá hófst „PR-sjálfsmorðið" strax eftir leik inni í búningsherbergi Liverpool. Þegar það barst inn í klefann að Patrice Evra hefði lagt fram kvörtun um kynþáttaníð var Damien Comolli, yfirmanni knattspyrnumála hjá Liverpool, strax ljóst að slíkt gæti skaðað ímynd klúbbsins.

Í stað þess að heyra alla sögu Suarez og taka hann svo með sér inn í dómaraherbergið til að segja hans sögu, þá ákvað hann að hlusta á söguna en fara svo án Suarez og segja við dómarann hvað hefði gerst, en hefði Suarez verið með honum inni í herberginu hefði hann getað leiðrétt spænsku setninguna strax (þ.e. ef að hann var ekki að ljúga eftir á). Þá hefði aldrei komið upp sá leiði „misskilningur” hjá bæði Comolli og Kuyt (á tveimur ólíkum tungumálum) um hvað Suarez sagði sem þeir urðu svo báðir að breyta við yfirheyrslu eftir að hafa áttað sig á því hverju Suarez var að halda fram þar.

Kenny Dalglish var einnig á staðnum og á þessum tímapunkti mátti þeim vera ljóst að FA gæti tekið hart á þessu og litið á þetta sem kynþáttafordóma og að það væri í hag allra tengdum félaginu að ljúka þessu með flýti og af auðmýkt.

Önnur mistökin eru margþætt og eiga sér stað næstu sólarhringana á eftir. Félagið hótaði á fyrsta sólarhringnum að höfða mál á hendur Evra fyrir að skaða ímynd klúbbsins. Félagið neitaði einnig tilboði frá Gordon Taylor hjá enska knattspyrnusambandinu um að fram færu viðræður milli aðilanna og afsökunarbeiðni fyrir það sem sagt hafði verið (sem frá sjónarhorni Liverpool hefði væntanlega þýtt bæði frá hönd Suarez og Evra). Slíkt hefði verið besta lausnin fyrir Liverpool og málið gleymt á engum tíma. Í framhaldinu var Suarez hleypt í viðtal án þess að koma því á framfæri að hann væri miður sín yfir þessum leiðinlega „misskilningi” og að hann vonaði að Patrice Evra skyldi að hann hefði ekki meint neitt illt með þessu.

Í staðinn kom hann fram í hinni mestu vörn og sagði að hann hefði einungis kallað Evra það sem liðsfélagar hans hjá United kalla hann, sem varð að stóra „negrito” málinu. Í stað þess að Dalglish kæmi fram og segði að um „misskilning” væri að ræða, ýjaði hann að því að Evra ætti að fara í bann fyrir að ljúga. Á svipuðum tíma laug starfsmaður heimasíðu Liverpool því í twitter færslu að Evra hefði tvívegis áður sakað aðra ranglega um kynþáttafordóma, en það reyndist svo vera „misskilningur” þegar fjölmiðlar gengu á hann.

Eftir þetta var ekki aftur snúið og rannsókn enska knattspyrnusambandsins fór á fullt. Fjölmiðlar hömuðust á málinu og Dalglish rauf ítrekað bann sambandsins um að tjá sig um málið og fann því allt til foráttu. Á knattspyrnuvellinum fór Evra skyndilega að finna sitt gamla form á meðan Suarez var í algjöru svartholi og skoraði einungis 1 mark í næstu 10 leikjum auk þess að næla sér í eins leiks bann fyrir að sýna stuðningsmönnum Fulham vísifingurinn – enda ósanngjarnt að hann væri fórnarlambið í þessum stóra „misskilningi”.

Eftir að tímamótadómur féll í máli Luis Suarez tók við áframhaldandi PR hörmungasaga. Á milli þess sem FA gaf út refsinguna á leikmanninn og þar til dómur var birtur gaf félagið út afar barnalega yfirlýsingu sem hefur skaðað ímynd þess meira en orð Suarez í leiknum (hver sem þau voru). Í henni var sökinni beint aftur að Patrice Evra sem lagði fram kæruna og hann vændur um að vera óáreiðanlegt vitni í ljósi fyrri ásakanna hans og þar með félagið að klína á hann sögum sem eiga við engin rök að styðjast – enn og aftur: Patrice Evra hefur aldrei áður kært leikmann fyrir kynþáttaníð. Ekki Steve Finnan og ekki vallarstarfsmann Chelsea.

Í öðru lagi kom fram í yfirlýsingunni að félagið virðist ekki skilja muninn á ásökunum um kynþáttafordóma eða níð annars vegar og hins vegar að einhver sé kynþáttahatari. Í þriðja lagi virðist félagið ekki átta sig á því að allir (óháð litarhafti) geta verið kynþáttahatarar eða níðst á öðrum með þeim hætti, það hvort að afi Suarez hafi verið blökkumaður kemur málinu hreinlega ekkert við og virkar hlægilegt í augum hinna hlutlausu. Í fjórða lagi ásakar félagið sjálft knattspyrnusambandið um óheiðarleika í málinu og fer að lokum fram á það að Patrice Evra verði refsað fyrir orð sín sem átti að vera South American en ekki var hægt að sanna og Evra neitaði fyrir. Á sama tíma fór félagið fram á að banninu á Suarez yrði aflétt sem sjálfur hafði viðurkennt að nota orð sem sérfræðingar sem leitað var til sögðu að túlka mætti sem kynþáttafordóma við ýmsar aðstæður (orðið negro ekki negrito).

Á næsta sólarhring rétt fyrir leikinn gegn Wigan kom svo út yfirlýsing frá leikmönnum Liverpool þar sem þeir sögðust allir styðja við bakið á Suarez. Annað hvort var sú yfirlýsing gerð án samþykkis leikmanna eða að þeir voru ekki með hugann við leikinn gegn Wigan sem endaði með tveimur töpuðum stigum hjá Liverpool. Fyrir þann leik hituðu allir leikmenn Liverpool upp í bolum með andliti Suarez framan á og númeri hans og nafni aftan á – einnig Suarez. Sjálfur mætti Dalglish í slíkum bol í viðtal á Sky yfir jakkafötin sín og stuðningsmenn annarra liða en Liverpool og United vissu ekki hvort að þeir ættu að hlæja eða gráta. Allir vissu hvaða óþroskuðu skilaboð var verið að senda: Liverpool var að sýna FA puttann.

Þessi áðurnefnda yfirlýsing leikmanna er sett fram (sennilega með pressu frá félaginu) án þess að þeir hefðu minnstu hugmynd um útkomuna – trú í blindni. Einna áhugaverðust er þar núverandi staða Glen Johnson. Í dómnum segir að Suarez hafi í sinni vörn notað Johnson sem dæmi um að negro væri ekki skammaryrði með því að halda því fram að hann segði við hann ,,Just pass the ball negro”. Annað hvort er hér um svæsna lygi að ræða eða að Suarez er búinn að koma Johnson í smá klípu. Sé um raunverulegt dæmi að ræða hefði Johnson án efa átt samtal við Suarez og reynt að skýra út fyrir honum að þetta væri ekki í lagi eða að það gæti misskilist. Að öðrum kosti hefur Johnson kallað það yfir sig að hver einasti skítugi súrefnisþjófur sem finnst á völlunum í Englandi (og þeir eru nokkrir) geta nú í hæðni kallað hann negro.

Til að bæta gráu ofan á svart þá er ljóst hvaðan upplýsingum, oft fölskum eða misvísandi röngum upplýsingum, um málið var lekið í fjölmiðla til að grafa undan persónu Patrice Evra. Sé vörn Suarez skoðuð, sem er oft í besta falli vafasöm, kemur í ljós að flestar af fréttunum á milli þess sem dómur var kveðinn og skýrslan birtist, kemur nánast beint úr þeim hluta – sem enska knattspyrnusambandið tók svo ekki mark á. Þar á meðal orð höfð eftir Kuyt um að Evra hefði sagt við dómarann að hann væri einungis að spjalda hann vegna þess að hann væri svartur og að Evra hefði kallað Suarez skammaryrðinu ,,sudaca” – bæði þessi atriði eru fjarri öllum sannleika.

Félagið ákvað sem sagt að reyna að ná sér niður á leikmanninum og sverta mannorð hans með því að leka þessum ósönnu upplýsingum til hliðhollra fjölmiðlamanna. Helstu blöðin á Englandi hafa enda fjallað um þessar vafasömu aðgerðir félagsins.

Á þriðjudag, 3. janúar, ákvað Liverpool svo að áfrýja ekki 8 leikja banni Suarez og hætta þar með að grafa sér dýpri holu... eða hvað? Yfirlýsing félagsins og leikmannsins eru ekki til marks um að þeir aðilar hafi lært nokkuð PR-lega séð síðustu mánuðina. Í fyrsta hluta yfirlýsingar félagsins (sem oftast er talinn sá mikilvægasti) kom fram að það er ennþá þeirrar skoðunar að refsa eigi Evra fyrir sinn hlut og enska knattspyrnusambandið er sagt hafa með vinnubrögðum sínum eyðilagt orðspor eins besta leikmanns deildarinnar.

Engin afsökunarbeiðni og augljóst að félagið telur leikmanninn saklausan, en treystir sér þó ekki í að verja það sakleysi. Mögulega vegna þess hversu illa leikmenn (Suarez og Kuyt) og starfsmenn félagsins (Comolli og Dalglish) komu út úr yfirheyrslunum. Í yfirlýsingu leikmannsins kemur ekki fram nokkur iðrun, hann segir að nú taki hann út leikbann sem fórnarlambið sem hefur ekki gert nokkuð rangt. Hann segist koma frá landi þar sem orðið negro sé oft notað en ekki í niðrandi tilgangi þrátt fyrir að þeir sérfræðingar sem FA kallaði til hafi sagt hið andstæða – en það er þeirra „misskilningur”.

Fjölmiðlar í Englandi hafa ekki keypt þennan málflutning og flestir þeirra hafa eftir yfirlýsingarnar á þriðjudag fjallað um málið á baksíðum sínum þar sem félagið og leikmaðurinn fá sinn skerf. Á blaðamannafundi eftir tapið gegn City gekk blaðamaður Guardian ítrekað á Dalglish varðandi Suarez málið og þjálfarinn reyndi árangurslaust að snúa sig út úr þessu með barnalegum hætti uns blaðafulltrúi félagsins skipti sér að og bað blaðamenn að spyrja ekki frekar út í málið. Áhugaverður var sá punktur sem kom fram hjá Dalglish að það hafi verið ákvörðun félagsins (eigendanna væntanlega) að fara ekki lengra með málið en spurning blaðamannsins var þó enn betri: „Kenny, given how the wider public are so opposed to your view, what do you have to lose by telling us and revealing what you're saying was not included in the FA statement?"

Í þessum fullkomna stormi sem gengið hefur yfir Liverpool hefur lítið sem ekkert heyrst frá eigendum liðsins sem eru í slæmri stöðu. Þjálfarinn, leikmenn og stuðningsmenn virðast í þrjósku sinni og reiði standa saman en á sama tíma lítur málið alltaf verr og verr út PR-lega séð út á við fyrir Liverpool. Það er mér til efs að eigendurnir hafi lesið yfir yfirlýsingarnar tvær sem birtust á heimasíðu félagsins, til þess eru þeir of miklir viðskiptamenn og vita hvað orðspor og ímynd er mikilvæg hverju fyrirtæki eða íþróttafélagi. Eftir fyrri yfirlýsinguna gátu þeir ekki gefið út aðra yfirlýsingu þverrt á þá fyrri og gegn þjálfaranum og leikmönnum. Að sama skapi geta þeir ekki rekið Dalglish fyrir tapaðan orðstír (og að fara mjög illa með fjármuni) því að hann er með aðdáendur liðsins á bakvið sig. Eftir að málið fór á síðustu dögum að vaxa vestanhafs urðu þeir þó á endanum að grípa í taumana og sleppa því að áfrýja, þeirra eigin orðspor og ímynd hefði að öðrum kosti farið í vaskinn.

Klúbburinn er kominn í stöðu sem aðdáendur þess þekkja of vel, Catch 22 enn eina ferðina. Enn og aftur er félagið orðið aðhlátursefni stuðningsmanna annarra liða... eða kannski er það líka „misskilningur”? Aðdáendur annarra liða hafa tekið 5-aurinn á þetta og kalla heimavöll félagsins nú Klanfield, þjálfara liðsins KKKenny og leikmannninn Suaracist auk annarra álíka frumlegra nafna. Skaðinn er þó skeður og slík nöfn geta auðveldlega fest við.

Málið er langt því frá búið því fjölmiðlar þurfa að selja blöð og almenningur vill hneykslast. Augu og eyru þeirra munu beinast að Liverpool. Hvaða leikmenn mun liðið fá í janúar og verður einhver af þeim svartur? Sama hvort að hann verður það eða ekki þá má félagið eiga von á því að það verði gagnrýnt. Aðdáendur annarra liða munu einnig láta Liverpool heyra það og Suarez má eiga von á því að fá svipuð viðbrögð þegar hann snýr aftur og allir aðrir sem gerðir hafa verið að skúrum (með réttu eða röngu) á síðustu árum. Þá er spurningin hversu lengi hann lætur það yfir sig ganga og hvort að hann missi stjórn á sér með því að bíta aðra leikmenn, gefa stuðningsmönnum puttann eða vera ,,misskilinn” með orðum sínum...? hvernig sem fer er ljóst að við eigum ennþá inni einhverjar dýfur.

Af framangreindu má fullyrða að Liverpool hefur glatað hluta af sínum orðstír, sem hefur verið einn af lykilþáttum þess að félagið hefur náð í leikmenn þegar illa hefur gengið á undanförnum árum. Fyrir fjölmiðlum og stórum hluta almennings hefur félagið orðið uppvíst af því að styðja í blindni við leikmann sem svo hefur verið dæmdur fyrir rasisma. Comolli og Dalglish hafa einnig lagt sitt orðspor að veði og koma laskaðir út úr þessu máli, sérstaklega Dalglish sem hefur verið meira í sviðsljósinu. Fyrir tæpu ári síðan þegar hann snéri aftur til Liverpool hefði engum fjölmiðlamanni dottið í hug að hjóla í hann með sama hætti og blaðamaður Guardian gerði í gær og í dag er hann ekki á sama virðingarstalli og fyrir þetta tímabil. Eigendur liðsins geta skilið að hann hafi tapað peningum (Carroll, Downing, Henderson, Adam) en spurningin sem eftir stendur er hversu „ruthless” þeir verða eftir þennan harmleik í sögu félagsins.

Ástarkveðja Bjarni Þór Pétursson
banner
banner