Hvort sem sem það er einstaka kvöld á Obladi-Oblada í miðbænum eða Fram X Factor sem fer fram á næstunni þá er stór ástæða fyrir því að það er ekki mikið mál fyrir mig að syngja fyrir framan aðra. Þegar ég var ungur fótboltamaður lenti ég í tveimur atvikum sem mótuðu mig sem söngvara og urðu til þess að ég er óhræddur við að syngja núna!
Fyrra atvikið átti sér stað þegar ég var 16 ára gamall. Sem ‘apprentice’ leikmaður (sem eru þeir sem eru á fyrstu tveimur árum sínum í unglingaliðinu) þurfti hver okkar að þrífa skóna hjá tveimur leikmönnum í aðalliðinu. Mínir leikmenn voru Mikael Forssell og Mario Melchiot. Þeir eru báðir frábærir og vingjarnlegir einstaklingar. Um jólin var venjan að við fengjum bónus sem leikmennirnir gáfu okkur sem þakklætisvott. Búningastjórinn ákvað hins vegar ásamt leikmönnum aðalliðsins að þetta árið myndum við þurfa að ‘syngja fyrir peningnum’. Við fengum að vita af því með viku fyrirvara og þurftum að finna félaga með okkur til að syngja lag fyrir framan aðalliðið og allt starfsfólkið í mötuneytinu eftir hádegismat einn daginn. Þar sem ég var feiminn ungur maður þá var þetta fullkomin martröð fyrir mig. Eftir því sem vikan leið var söngfélagi minn plataður í að koma með gítar með sér en hann spilaði á þessum tíma einnig í hljómsveit. Það kom í ljós beint eftir atriðið að þetta var til að gera niðurlæginguna sem mesta.
Fyrsta lagið fór vel í mannskapinn en það var flutningur á ‘Stand by me’ eftir Ben E King. Síðan kom að okkur. Þrátt fyrir að hafa bætt við hljóðfæri þá höfðum við ekki æft okkur. Þannig að þegar Glenn spilaði upphafstónana í ‘Don’t Look Back In Anger’ og algjör þögn var fyrir framan okkur var ég fullur af ótta.
‘Slip inside the eye of….hvað ertu að gera, af hverju ertu ekki að syngja!?’ öskraði ég á hann þegar ég snéri mér við. Glenn hafðip guggnað á því að byrja að syngja með mér og mín skræka rödd þurfti nauðsynlega á smá aðstoð. Baulið sem fylgdi í kjölfarið var rosalegt, þeir höfðu séð gítarinn og bjuggust við einhverju sem væri líkara alvöru laginu en ekki þetta rusl. Við rifumst með því að hvíslast á áður en við byrjuðum aftur. Við vorum báðir mjög rólegir drengir svo raddirnar okkar heyrðust varla út af gítarnum. Baulinu rigndi yfir okkur, ásamt afgöngunum af hádegismatnum. Ég er að tala um slatta af mat. Búningstjórinn hló eins og óður væri og þegar ég leit upp fékk ég hálfétna kartöflu beint í andlitið. Meira að segja ritarinn var byrjaður að grýta í okkur mat áður en við lukum okkur af.
Við sögðum ‘takk’ og hröðuðum okkur síðan burt af sviðinu sem var búið að búa til. Búningastjórinn tók brosandi og ánægður á móti okkur og rétti okkur tvö umslög með ávísunum. Eftir sársauka og niðurlægingu....fylgir ánægja í kjölfarið.
Hitt atvikið átti sér stað þegar ég var 19 ára á bílastæði æfingasvæðisins. Ég bakkaði út úr stæðinu, kíkti og hélt að ég væri góður. Ég fór frekar varlega ....en ekki nógu varlega. Ég heyrði ískur í bremsum og síðan smá högg.
‘Tillo, þú klesstir á bílinn hans Lamps!’ heyrði ég skoska farþegann í aftursætinu segja. Ég sá að bróðir minn Joe var skíthræddur við hliðina á mér áður en ég labbaði út. Frank Lampard birtist á sama tíma.
‘Sástu mig ekki félagi?’
‘Ég biðst innilegrar rafsökunar, ég hélt að þetta væri í lagi, eru einhverjar skemmdir?’
Við horfðum allir framan á bílinn og sáum smá beyglu framan á glænýrri Aston Martin DB7 bifreið Frank’s. Við vissum allir hvaða bíll þetta var því að hann var nýbúinn að vera í nýjustu James Bond myndinni. Þú verður horfa á þær myndir ef þú ert enskur, það er siður.
‘Ég biðst innilegrar afsökunar Frank....’
‘Oh, ekki hafa áhyggjur af því, passaðu þig bara betur næst.’
Ég fór inn í hús og fréttirnar af þessu óheppilega atviki hjá mér höfðu náð að breiðast út hraðar en ástralskur skógareldur. Allir voru að tala um þetta, ‘Hversu mikið mun þetta kosta fyrir þig?’ ‘Þú færð aldrei tryggingu núna!’ og ‘Lamps er brjálaður í búningsklefanum og hann ætlar að láta þig borga fyrir skemmdirnar’ Hann ætlaði ekki að gera það en þetta var ekki eitthvað sem ég þurfti að heyra. Þetta var ekki auðvelt en Frank var frábær við mig og sagði ‘Ég veit að þetta var slys og þetta er í góðu lagi, gleymdu þessu bara.’
Hins vegar slapp ég ekki alveg. Þetta virkar ekki þannig. Fyrsta hugmyndin sem John Terry og Frank fengu var ‘bílpróf’ á bílastæðinu fyrir utan. Þar átti ég að keyra Fiat Punto bifreið mina fyrir framan alla í gegnum keilur og bakka í stæði. Á endanum var hætt við þessa hugmynd. Refsingin var sú að ég og Joe þurftum að syngja fyrir liðsfund hjá aðalliðinu á föstudegi. Vinur minn Steve Watt, sem var í aftursætinu, þurfti að dansa með.
Föstudagurinn rann upp og John kallaði okkur inn í fundarherbergið. Allt aðalliðið var þar sem og ‘Special One’, Herra Mourinho og starfsfólk hans, þar á meðal núverandi stjórinn Andre Villas Boas.
John kynnti okkur fyrir liðsfélögum sínum. ‘Þessir strákar vilja tala við ykkur’
Ég byrjaði, ‘Halló, eins og þið kannski vitið þá heiti ég Sam og þetta er bróðir minn Joe. Á endanum er stóri Watty. Ég er hér í dag því ég er skelfilegur bílstjóri. Fyrir nokkrum vikum bakkaði ég því miður á bílinn hans Frank’s þegar ég var að mæta á æfingu. Skammast mín mikið en sem betur fer hefur Frank leyft mér að sleppa við að borga háan reikning og í staðinn munum við syngja fyrir ykkur. Ég og bróðir minn ætlum að syngja ‘Live Forever’ með Oasis og Watty mun taka danssporin með. Áhorfendurnir hlógu. Joe og ég horfðum á hvorn annan og byrjuðum....
‘Maybe, I don’t really wanna know…’
Mér fannst við hljóma betur en sjálfir Gallagher bræður en sem betur fer skipti það ekki máli því athygli áhorfendanna beindist algerlega að fáránlegum danssporum hjá tæplega tveggja metra háum Watty. Allir hlógu og það var klappað fyrir okkur í lokin.
‘Var þetta í lagi?’ sagði ég við Frank. ‘Já, vel gert’ og við tókum í höndina á honum og John sem stóð hlægjandi við dyrnar og kinkaði kolli til marks um að þetta hefði verið í lagi. Við vorum lausir allra mála.
Þetta var samt ekki allt búið. Joe og ég höfðum ákveðið að tala aldrei um þetta þar sem við skömmuðumst okkar. Við vildum ekki að mamma og pabbði hefðu áhyggjur af okkur, sérstaklega ekki þegar við vorum að keyra 100 mílur fram og til baka á hverjum degi. Það myndi ekki hjálpa ef foreldrar okkar væru að hugsa um okkur að skemma dýra bíla. Þetta var líka vandræðalegt.
Einum eða tveimur mánuðum síðar fór Herra Lampard í viðtal hjá The Sun og minntist á þetta atvik. Hann nefndi okkur alla með nafni og sagði frá flutningi okkar á ‘Live Forever’. Þegar við komum heim af æfingu sagði pabbi, ‘Klesstuð þið á bílinn hans Frank Lampard?’ ‘Hvernig vissir þú það?’ sagði ég. ‘Pete í vinnunni sagði ‘Ég sé að strákarnir þínir sungu fyrir framan aðalliðið um daginn...Sam klessti á bílinn hans Lampard’s” Gamli góði Pete lét pabba síðan fá blaðið og hann sýndi okkur það.
Hvað gat ég sagt? Ég var sekur og hafði lært dýrmæta lexíu, sannleikurinn kemur í ljós á endanum!
Þrátt fyrir að mistök mín hafi verið afhjúpuð í viðtalinu þá þarf ég að þakka Frank Lampard kærlega.
Góðmennska og fyrirgefning hans sparaði mér nokkur þúsund pund.