Byron Moreno er nafn sem hefur skotist upp í umræðuna á Ítalíu eftir skandalinn á Stadio Angelo Massimino á sunnudag. Moreno er frægasti spillti dómari sögunnar en hann situr nú bak við lás og slá.
Dómaraskandallinn í leik Catania og Juventus hefur aðeins fallið í skuggann á atburðunum á Stamford Bridge og Goodison Park á Englandi. Já um alla Evrópu voru dómararnir í aðalhlutverki um liðna helgi.
Á ótrúlegan hátt var löglegt mark dæmt af Catania, 40 sekúndum eftir að það hafði verið dæmt löglegt. Juventus vann 1-0 en mark liðsins átti ekki að standa sökum rangstöðu.
Ítalía flautuð úr leik
Dómgæslunni í leiknum hefur verið líkt við dómgæsluna í leik Ítalíu og Suður Kóreu í 16-liða úrslitum HM 2002. Leikurinn er einn sá allra verst dæmdi í sögu stórmóts en grunsamlega mikið hallaði á Ítalíu í leiknum.
Dómari leiksins var Byron Moreno frá Ekvador.
Kóreumenn unnu leikinn 2-1 í framlengingu. Umdeildustu atvikin voru vítaspyrna sem Kórea fékk snemma leik, gullmark Damiano Tommasi sem var dæmt af og seinna gula spjald Francesco Totti fyrir meintan leikaraskap. Þá var brotið í sífellu á leikmönnum Ítalíu án þess að dæmt var.
Ítalska þjóðin kenndi Moreno og félögum hans um að ítalska liðið hefði fallið úr leik og þjálfarinn Giovanni Trappattoni kom með samsæriskenningar þess efnis að FIFA hefði skipað dómaranum að sjá til þess að Suður-Kóreumenn, gestgjafar á mótinu, kæmust áfram.
Sepp Blatter, forseti FIFA, viðurkenndi að dómgæslan hefði verið léleg í leiknum en neitaði því að brögð hefðu verið í tafli, um mannleg mistök hefði verið að ræða. Ítalska liðið hefði líka gert mistök, bæði í vörn og sókn.
13 viðbótarmínútur
Moreno var sendur heim eftir leikinn og bauð sig fram í borgarstjórn Quito, höfuðborgar Ekvador, meðfram því sem hann dæmdi leiki.
Í september 2002 var hann dæmdur í 20 leikja bann og sætti rannsókn FIFA og knattspyrnusambands Ekvador.
Hann hafði þá dæmt leik LDU de Quito og Barcelona Sporting Club á mjög vafasaman hátt. LDU var að tapa 2-3 þegar 90 mínútur voru liðnar, Moreno gaf merki um að sex mínútum yrði bætt við leiktímann. Hann lét svo viðbótartímann ganga í 13 mínútur. LDU jafnaði á 99. mínútu og skoraði sigurmarkið á 101. mínútu.
Moreno var einnig fundinn sekur um fölsun þar sem hann gaf upp aðrar tímasetningar á tveimur síðustu mörkum leiksins á skýrslu sinni.
Moreno notaði 20 leikja fríið meðal annars til að koma fram í ítölskum skemmtiþætti þar sem hann var klæddur í dómarabúninginn og vatni hellt yfir hann meðan áhorfendur bauluðu. Alvöru sjónvarp.
Í maí 2003 var Moreno aftur dæmdur í bann, þá í einn leik. Hann var að dæma sinn þriðja leik eftir fyrra bannið og rak þrjá leikmenn Deportivo Quito af velli í jafnteflisleik gegn Deportivo Cuenca. Mánuði síðar ákvað hann að leggja flautuna á hilluna og hætta dómgæslu.
Handtekinn á flugvellinum
Í september 2010 náði Moreno að koma sér aftur í fréttirnar. Að þessu sinni var hann handtekinn á John F. Kennedy flugvelli í New York þegar hann reyndi að smygla sex kílóum af heróíni sem falin voru í nærfötum hans. Hann játaði sök og var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í september í fyrra.
Einn versti dómari sem dæmt hefur á HM.
Spilling, mútur, hótanir, siðleysi og athyglissýki eru orð sem eiga vafalítið öll vel við varðandi sögu Moreno. Gæðaleysi er kannski orðið sem á betur við dómgæsluna í enska boltanum um síðustu helgi.
Ítalski fótboltinn er með þann stimpil á sér að vera spilltur en spillingin er víðar. Arnar Grétarsson sagði í útvarpsviðtali á dögunum að á Grikklandi væri það alvitað að dómurum er mútað. Dæmi eru um að brot einhverja metra fyrir utan teig séu færð inn í teiginn og vítaspyrnur dæmdar.
Það er víst allt fáanlegt fyrir rétta upphæð.
Athugasemdir