Antony vill ekki yfirgefa Man Utd - Bakvörður Sevilla á blaði Man Utd - Newcastle ætlar að halda Trippier
   þri 01. mars 2016 17:20
Elvar Geir Magnússon
Hannes stefnir á að vera með gegn Dönum og Grikkjum
Hannes í viðtali við Fótbolta.net.
Hannes í viðtali við Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næstu verkefni A-landsliðsins eru vináttuleikir gegn Dönum og Grikkjum ytra 24. og 29. mars. Markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson vonast til að geta tekið þátt í þeim verkefnum.

Hannes, sem er leikmaður NEC Nijmagen í Hollandi, er á góðri leið eftir að hafa farið úr axlarlið í aðdragandanum að lokaleik Íslands í undankeppni EM.

„Staðan er góð. Ég er mjög ánægður með hvernig hefur gengið og ég er á góðum stað miðað við hvenær ég fór í aðgerðina. Fyrir nokkru var ég byrjaður að æfa með markvörðunum en næsta skref er að taka þátt í heilum æfingum með hópnum. Það er komið í gang. Í gær tók ég þátt í spili og skotæfingum og öllum pakkanum," segir Hannes við Fótbolta.net.

„Nú er þetta farið af stað af alvöru, ég er ekki orðinn 100% en er nógu góður til að æfa á fullu og mun þá ná að fylla upp í prósentin. Markmiðið hjá mér hefur alltaf verið að spila 1-2 varaliðsleiki í fyrri hluta mars og eiga þar af leiðandi möguleika á að vera valinn í hópinn fyrir leikina gegn Dönum og Grikkjum. Ég hef alltaf stefnt að því leynt og ljóst að vera orðinn leikfær fyrir þá leiki og það lítur mjög vel út með það núna."

Mikilvægast að öxlin haldi
NEC fékk til sín Brad Jones, fyrrum markvörð Liverpool, þegar Hannes meiddist og hefur Jones fundið sig vel með liðinu.

„Hann er búinn að spila mjög vel, það verður ekki af honum tekið. Það er ákveðin áskorun að takast á við það," segir Hannes sem hefur sigrast á mörgum áskorunum á sínum ferli.

„Ég hef haft mikla trú á sjálfum mér þegar ég þarf að takast á við svona samkeppni. Ég á enn eftir að tapa samkeppni nema þegar Valur Gunnarsson hélt mér á bekknum hjá Leikni 2004. Staðan er þannig að þetta er ekkert í mínum höndum. Maðurinn er að spila vel. Það eru tveir mánuðir til stefnu og í svona samkeppni þurfa hlutirnir kannski að falla með þér. Það er þannig með markmannsstöðuna að þegar maðurinn sem spilar stendur sig er lítið sem ég get gert í því."

„Ég hef tekist við áskoranir áður en það mikilvægast í þessu öllu er að öxlin haldi og það lítur vel út með það. Svo lengi sem öxlin heldur þá finn ég leiðir til að spila fyrir sumarið."
Athugasemdir
banner
banner
banner