Liverpool býður Trent væna launahækkun - PSG og Villa gætu skipst á leikmönnum - Zirkzee vill fara frá Man Utd
   mán 23. október 2017 15:15
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Sýnum karakter 
Fjolla: Fótboltinn fékk mig til að feta rétta leið í lífinu
Fjolla Shala.
Fjolla Shala.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
„Fótboltinn hefur leikið risastórt hlutverk í mínu lífi og gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag," segir Fjolla Shala, leikmaður kvennaliðs Breiðabliks.

Hún hélt stuttan fyrirlestur á dögunum fyrir átaksverkefnið „Sýnum karakter“ og má sjá fyrirlesturinn í heild hér fyrir neðan.

Fjolla er fædd í Kosóvó. Þegar hún var um hálfs árs gömul flutti fjölskylda hennar til Þýskalands. Árið 1998 kom fjölskyldan svo til Íslands. Þá var Fjolla um fimm ára. Hún hóf að æfa fótbolta níu ára, hjá Leikni í Breiðholti.

„Strax á fyrstu æfingunni fann ég að ég hefði fundið mína hillu. Pabbi var kveikjan að því að ég fór að æfa fótbolti. Hann hafði sjálfur verið liðtækur knattspyrnumaður og ég horfði upp til hans. Það reyndist mér mikið heillaspor. Auðvitað voru foreldrar mínir að reyna að koma undir sig fótunum í nýju landi. Það kom oft fyrir að foreldrar mínir þurftu að vinna mikið og gátu því ekki tekið jafn mikinn þátt og þau vildu. Það var því oft sem mig vantaði far á keppnisvelli eða mót. Ég er mjög þakklát mínu frábæra uppeldisfélagi, Leikni, því þjálfararnir skutluðu mér til og frá æfingum eða hjálpuðu mér að verða mér úti um far með foreldrum annarra stelpna. Þeir reyndu að sjá til þess að ég gæti stundað mína íþrótt af krafti."

Fjolla segist hafa verið erfið í æsku, verið með gríðarmikið skap sem hún hafi átt erfitt með að hemja.

„Ég var mjög grimm á velli sem fór misvel í foreldra andstæðingana. Þegar ég spilaði með strákum hentaði það mjög vel að vera ákveðin og grimm. Ég átti samt stundum í erfiðleikum með að hemja skap mitt í mótlæti, þjálfararnir þurftu stundum að grípa inn í og taka mig á velli. Líka dómarinn einstaka sinnum," segir Fjolla.

Hún segir að fótboltinn hafi hjálpað sér mikið í lífinu, til dæmis þegar hún fór í slæman félagsskap.

„Í kringum tólf ára aldurinn var ég farinn að sækja í félagsskap unglinga sem voru á allt annarri braut en ég í lífinu. Þetta var ekki góður félagsskapur fyrir krakka á mínum aldri en hafði talsverð áhrif á mig og það sem ég gerði. En fótboltinn var alltaf þarna sem handritið mitt á rétta braut í lífinu. Með því að vera alltaf inni í boltanum náði ég að halda smá stöðugleika. Fótboltinn veitti mér nauðsynlegt öryggi og athvarf frá öllu öðru."

„Þjálfararnir í fótboltanum veittu mér talsvert aðhald og hvöttu mig til að halda áfram. Þeir reyndu að beina mér rétta braut í lífinu og hjálpuðu mér innan vallar og ekki síður utan hans. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa haft mikið af góðu fólki í kringum mig sem hafði trú á mér og gafst aldrei upp á mér," segir Fjolla.

Fjolla spilar í dag fyrir Breiðablik en hún á að baki Íslandsmeistaratitil og bikarmeistaratitil með Blikaliðinu. Á fyrirlestrinum, sem sjá má hér að neðan, talaði hún um að vinna þyrfti í því að fá fleiri börn af erlendum uppruna til að taka þátt í íþróttastarfi.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner