Leikmaður 1. umferðar: Adam Örn Guðmundsson - Fjarðabyggð
Líkt og undanfarin ár velur Fótbolt.net leikmann umferðarinnar í 2. deild karla. Dómnefnd síðunnar valdi Adam Örn Guðmundsson, 17 ára leikmann Fjarðabyggðar, eftir fyrstu umferðina.
Adam skoraði tvö mörk þegar Fjarðabyggð vann 5-1 útisigur gegn Kára á Akranesi í fyrstu umferðinni.
Adam skoraði tvö mörk þegar Fjarðabyggð vann 5-1 útisigur gegn Kára á Akranesi í fyrstu umferðinni.
Staðan var 1-1 á 40. mínútu leiksins þegar Káramenn misstu mann af velli en Sindri Snæfells Kristinsson fékk þá rautt spjald.
Austfirðingar nýttu sér liðsmuninn og rúlluðu yfir heimamenn. Það er ekki hægt að biðja um mikið betri byrjun á mótinu.
„Nei það er alveg rétt, sigur í fyrsta leik er mikilvægt veganesti inn í mótið og þessi leikur er eitthvað sem við viljum byggja ofan á í sumar," segir Adam Örn.
Hann lék 15 leiki í 2. deildinni í fyrra án þess að skora. Hvernig var að skora sín fyrstu meistaraflokksmörk á Íslandsmóti?
„Fyrstu mörkin gleymast ekki. það er klárt mál. Ég var að spila í nýrri stöðu sem veitir mér meira frelsi á vallarhelmingi andstæðingana og það virðist henta mér vel."
Þegar Adam er beðinn um að lýsa sér sjálfum sem leikmanni kemur eitt orð í huga hans: „Metnaðarfullur."
Hver eru markmið hans boltanum?
„Eiga ógleymanlegt sumar með Fjarðabyggð og svona til lengri tíma litið þá er markmiðið alltaf að fara í atvinnumennsku," segir Adam.
Fjarðabyggð er spáð 10. sæti en Adam segir að markmið liðsins sé auðvitað að enda mun ofar.
„Já auðvitað, við ætlum ekki að taka þátt í fallbaráttu eins og á seinasta tímabili. Stemningin í hópnum er góð svo að ég er bjartsýnn á að við gerum góða hluti. Sumarið leggst vel í mig og það eru spennandi tímar framundan," segir Adam að lokum.
Athugasemdir