mið 01. febrúar 2023 14:22
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Guðni þarf aftur að fara í aðgerð og missir af öllu tímabilinu
Gekk í raðir Hammarby fyrir tímabilið 2021.
Gekk í raðir Hammarby fyrir tímabilið 2021.
Mynd: Guðmundur Svansson
Jón Guðni Fjóluson þarf að fara í aðgerð og missir af öllu tímabilinu 2023. Þetta kemur fram í sænskum fjölmiðlum í dag. Jón Guðni sleit krossband í leik haustið 2021 og var frá allt síðasta tímabil.

Hann átti að snúa til baka núna fyrir tímabilið 2023 en hann varð fyrir bakslagi og þarf að fara í aðra aðgerð.

„Þetta eru sorglegar fréttir. Við stöndum við bakið á honum. Hann er frábær leiðtogi og einstaklingur. Þrátt fyrir að hafa átt erfitt síðasta ár þá var hann alltaf til staðar. Núna þurfum við að styðja við hann og vona það besta. Því þetta er mikið bakslag," sagði Marti Cifuentes, þjálfari Hammarby, við fotbollskanalen í dag.

Jón Guðni tók áfallinu ágætlega. „Hann er sterkur andlega. Ég hef rætt við hann og hann er mjög jákvæður. Hann vill berjast áfram," sagði Cifuentes sem staðfesti að Jón yrði frá út tímabilið 2023.

Samningur hans við Hammarby rennur út í lok árs en Cifuentes segir að félagið vilji nýta sér vitneskju og kunnáttu Jóns.

„Við höfum boðið honum annað hlutverk í kringum liðið á meðan endurkomuferlinu stendur. Kannski getur hann stutt við unga leikmenn hjá okkur. Hann hefur áhuga á þjálfun. Hann hljómaði áhugasamur þegar ég talaði við hann."

Jón Guðni er 33 ára varnarmaður sem hefur leikið erlendis sem atvinnumaður frá árinu 2011. Hann á að baki átján landsleiki á sínum ferli.
Athugasemdir
banner
banner
banner