Liverpool ætlar að gera tilboð í Camavinga - Man Utd vill Valverde - Man City ætlar að fá Semenyo
banner
   mán 01. desember 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Jasmín útskýrir riftunina
Kvenaboltinn
Breyttar forsendur.
Breyttar forsendur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skoraði seinna markið í 2-1 sigri á Breiðabliki í úrslitaleik Mjólkurbikarsins 2024.
Skoraði seinna markið í 2-1 sigri á Breiðabliki í úrslitaleik Mjólkurbikarsins 2024.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jasmín Erla Ingadóttir nýtti sér, eins og greint var frá fyrr í dag, uppsagnarákvæði í samningi sínum við Val og er laus allra mála. Hún átti eitt ár eftir af samningi sínum en vildi breyta til eftir tvö tímabil á Hlíðarenda.

Hún ræddi við Fótbolta.net um ákvörðunina.

„Aðalástæðan er breyttar forsendur. Ég kom til Vals á þeim forsendum að vera í titilbaráttunni og vinna marga titla, ég var búin að horfa á Val sem besta lið landsins undir stjórn Péturs (Péturssonar) og Öddu (Baldursdóttur) síðustu ár á undan. Þau smíðuðu algjört skrímsli og ég var mjög spennt að taka þátt í því verkefni. Ég fékk eitt tímabil með þeim og ég er mjög þakklát fyrir það, sturlað gaman," segir Jasmín. Valur varð bikarmeistari 2024 og endaði í 2. sæti í Bestu deildinni eftir mjög harða baráttu við Breiðablik.

„Svo varð einhver vendipunktur, Pétur var látinn fara og stórir karakterar og leikmenn sem fóru. Það voru fengnar inn ungar stelpur í staðinn sem ekki var hægt að setja þá kröfu á að myndu fylla í skörðin sem urðu eftir. Ég er svo sem ekkert á móti þeirri stefnu, það er allt í góðu að Valur sé að fara í uppbyggingarstefnu og gera eitthvað með nýjum og spennandi ungum leikmönnum. En ég kom ekki á þeim forsendum, þess vegna rifti ég. Ég vil prófa eitthvað nýtt," segir Jasmín.

Það er ljóst að annað árið í röð verða talsverðar breytingar hjá Val. Þær Fanndís Friðriksdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Jordyn Rhodes og Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir verða heldur ekki með Val á næsta tímabili og líkur á því að Elísa Viðarsdóttir hafi spilað sitt síðasta tímabil á Hlíðarenda.
Athugasemdir